Íslenski boltinn

Michael Præst annar hákarlinn sem KR-ingar semja við í haust

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Præst boðin velkominn í Vesturbæinn.
Michael Præst boðin velkominn í Vesturbæinn. Vísir/Tómas
Michael Præst, fyrrum fyrirliði Stjörnunnar, skrifaði í dag undir tveggja ára samning við KR og mun spila með Vesturbæjarliðinu í Pepsi-deild karla í sumar.

Michael Præst hafði áður tilkynnt um það að hann yrði ekki áfram hjá Stjörnunni þar sem hann hefur spilað undanfarin þrjú tímabil.

Það var vitað að KR-ingar höfðu mikinn áhuga á leikmanninum og það kom því ekki mikið á óvart þegar hann samdi við KR í dag. Þetta er mikill liðstyrkur og leikmaðurinn sem KR kannski vantaði á síðasta tímabili.

Michael Præst snéri til baka í Stjörnuliðið síðasta sumar eftir að hafa slitið krossband í hné í byrjun ágúst 2014. Stjörnumenn lönduðu þó Íslandsmeistaratitlinum án hans.

Michael Præst lék 16 leiki með Stjörnunni í Pepsi-deildinni síðasta sumar og var fyrirliði í þeim öllum. Hann var einnig fyrirliði Garðabæjarliðsins áður en hann meiddist.

Michael Præst er 29 ára gamall miðjumaður sem spilaði með Fyn og Kolding í dönsku B-deildinni áður en hann kom 26 ára gamall til Íslands. Hann var fyrirliði hjá Fyn enda mikill leiðtogi innan sem utan vallar.

Michael Præst er annar hákarlinn sem gengur til liðs við KR á síðustu dögum en í síðustu viku skrifaði Indriði Sigurðsson undir samning við sitt uppeldisfélag eftir að hafa spilað í fimmtán ár sem atvinnumaður í Evrópu.

KR-ingar eru því þegar byrjaðir á fullu að styrkja sitt lið fyrir næsta tímabil en KR endaði í 3. sæti í Pepsi-deildinni á fyrsta ári undir stjórn Bjarna Guðjónssonar auk þess að tapa bikarúrslitaleiknum á móti Val.

Michael PræstVísir/Tómas



Fleiri fréttir

Sjá meira


×