Fótbolti

Kári: Við erum besta liðið í þessum riðli svo einfalt er það

Tómas Þór þórðarson skrifar
Kári í leiknum í kvöld.
Kári í leiknum í kvöld. Vísir/Daníel Þór
"Þetta er alveg ótrúlegt," sagði Kári Árnason, miðvörður karlalandsliðsins í fótbolta, við Vísi er Tólfan var enn að syngja eftir markalaust jafntefli við Kasakstan í kvöld.

Ísland er komið á EM 2016 í Frakklandi, en það varð ljóst eftir jafnteflið í kvöld. Okkar stráku, nægði eitt stig og eitt stig fékkst. Kári vildi þó meira.

"Það er svolítið leiðinlegt að vinna ekki leikinn en þegar öllu er á botninn hvolft skiptir það svo sem litlu máli. Við ætlum samt að vinna næstu tvo leiki til að vinna riðilinn og vera í öðrum eða þriðja styrkleikaflokki á EM," sagði Kári.

"Lykilatriðið var bara að koma sér á EM í þessum leik, en við ætlum að vinna hina leikina líka. Ég var alltaf að vonast eftir því að við myndum skora því við stýrðum leiknum."

Aðspurður hvort það væri þetta hugarfar einmitt sem væri búið að fleyta liðinu þetta langt sagði Kári:

"Alveg klárlega. Við erum með besta liðið í þessum riðli. Svo einfalt er það. Við eigum fullkomlega skilið að vinna riðilinn. Leikurinn í dag var ekkert sá besti en það er skiljanlegt þar sem risa verðlaun voru í boði," sagði Kári.

"Við þurfum samt að gera það undir svona pressu og venjast því. Leikirnir gegn Lettlandi og Tyrklandi verða betri. Ég lofa því," sagði Kári Árnason.


Tengdar fréttir

Jóhann Berg: Það verður fagnað alls staðar í kvöld

"Þetta er yndislegt. Maður trúir því varla að litla Ísland sé mætt á EM. Þetta er þvílík veisla,“ sagði vægast sagt glaðbeittur Jóhann Berg Guðmundsson eftir jafnteflið við Kaskstan í kvöld.

Eiður Smári: Ætli EM verði ekki bara að duga

Eiður Smári Guðjohnsen var að vonum kampakátur eftir að Ísland tryggði sér sæti á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi sem fram fer næsta sumar þó hann hafi verið ónotaður varamaður í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×