Skoðun

Tjón á tónlistarlífi

Halldór Halldórsson skrifar
Enn og aftur heyrum við af vandræðum tónlistarskólanna í Reykjavík. Þrautaganga þeirra er orðin löng og því miður leysti samningur sveitarfélaganna og ríkisins ekki úr henni vegna þess hvernig meirihlutinn í Reykjavíkurborg túlkar þann samning. Ekki skal dregið úr því að samningurinn tók ekki nægilega á breytingum á nemendafjölda og slíku. Þetta var ekki nógu góður samningur en hann var engu að síður mjög til bóta. En það var ekki samið um að ríkið tæki við tónlistarnámi á framhaldsstigi heldur kæmi það með stuðning. Enda virðist eina sveitarfélagið sem túlkar það þannig vera Reykjavíkurborg.

Um þetta alvarlega mál höfum við borgar­fulltrúar fjallað oft í borgarráði og borgarstjórn og höfum við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins haft í forgrunni hagsmuni tónlistarfólks, tónlistarnema og tónlistarskólanna. Vegna alvarleika málsins í desember á síðasta ári lögðum við fram harðorða bókun í borgarstjórn.

Í bókun okkar sagði m.a. þetta: „Gjaldþrot blasir við tónlistarskólum í Reykjavíkurborg. Á undanförnum misserum hafa nemendur og starfsfólk þeirra tónlistarskóla sem hafa verið máttarstólpar íslensks tónlistarlífs búið við algjöra óvissu og mátt þola það að vita ekki hvort kennslu verði haldið áfram frá mánuði til mánaðar. Andvaraleysi meirihluta borgarstjórnar þegar kemur að tónlistarmenntun kemur fram í því að tónlistarskólum er búið rekstrarumhverfi sem er algjörlega óraunhæft. Meirihluti borgarstjórnar hefur frá árinu 2011 gert tónlistarskólana að bitbeini í hörðum deilum við ríkið um það hvort ríki eða borg eigi að bera kostnað af framhaldsstigi tónlistarmenntunar. Slík framganga er algjörlega óábyrg. Orðalag samkomulags um eflingu tónlistarnáms sem undirritað var í maí 2011 gefur ekki tilefni til þeirrar túlkunar sem meirihluti borgarstjórnar hefur kosið að halda fram. Samkomulagið fjallar ekki um yfirtöku ríkisins á framlagi til framhaldsmenntunar í hljóðfæranámi og mið- og framhaldsstigi í söng heldur samþykkir ríkið aðkomu að kennslukostnaði og það orðalag er ekki hægt að túlka sem yfirtöku á öllum fjárframlögum til framhaldsstigsins.“

Og enn standa skólarnir og hið öfluga menningarlíf sem þeir skapa frammi fyrir algjörri óvissu vegna andvaraleysis eða miklu frekar áhugaleysis meirihluta borgarstjórnar.




Skoðun

Sjá meira


×