Gríska þingið samþykkti í nótt seinni hluta þeirra efnahagstillagna sem ríkið þarf að innleiða svo hægt verði að koma í veg fyrir fjárhagslegt hrun Grikklands. Með samþykkt skilyrða lánadrottna þeirra hafa Grikkir tryggt sér neyðarlán upp á 86 milljarða evra frá Evrópusambandinu.
Lögin voru samþykkt með miklum meirihluta, eða 230 atkvæðum gegn 63. Þau innihalda ákvæði um afnám ríkisábyrgðar á viðskiptabönkum, breytingar á dómskerfinu sem heimila skjótari dómsmeðferðir og upptöku á innstæðutryggingu á innlánsreikningum upp á 100 þúsund evrur.
Fjölmenn mótmæli voru við þinghúsið á meðan umræður um tillögurnar fóru fram og til einhverra átaka kom þegar bensínsprengjum og öðru lauslegu var fleygt í lögreglumenn á svæðinu.
Grikkir samþykktu síðari hluta umbótatillagna
