Körfubolti

Serbía Evrópumeistari í fyrsta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ana Dabovic átti stórleik í síðari hálfleik.
Ana Dabovic átti stórleik í síðari hálfleik. Vísir/AFP
Serbía varð í kvöld Evrópumeistari kvenna í körfubolta eftir sigur á Frakklandi í úrslitaleik, 76-68, í Ungverjalandi í kvöld.

Frakkar byrjuðu betur í leiknum en Serbía komst á góðan sprett í öðrum leikhluta og héldu þá Frökkum í aðeins tíu stigum. Staðan í hálfleik var 33-32.

Serbar voru svo mun sterkari í síðari hálfleik og þar sem Ana Dabovic fór mikinn. Hún skoraði 25 stig í leiknum, þar af 21 í síðari hálfleik, en hún var svo kjörin besti leikmaður mótsins.

Systir hennar, fyrirliðinn Milica Dabovic, meiddist í fyrri hálfleik og kom ekkert við sögu í þeim síðari en það kom ekki að sök. Sonja Petrovic átti einnig góðan leik en hún skoraði 22 stig og tók sjö fráköst.

Miðherjinn Sandrine Gruda var stigahæst í liði Frakka með sextán stig en hún tók einnig fimm fráköst.

Serbía komst í undanúrslit fyrir tveimur árum sem var besti árangur liðsins frá upphafi á stórmóti í körfubolta. Frakkar voru hins vegar að spila sinn þriðja úrslitaleik á síðustu fjórum mótum en af þeim vann liðið aðeins einn - árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×