Fótbolti

Gylfi: Fékk smá frí og finn ekki fyrir neinum meiðslum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson í bílbeltabolnum sem strákarnir hafa skartað á æfingum liðsins í vikunni.
Gylfi Þór Sigurðsson í bílbeltabolnum sem strákarnir hafa skartað á æfingum liðsins í vikunni. vísir/valli
Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður Íslands í fótbolta, hefur verið í svakalegu formi í undankeppni EM 2016 til þessa.

Gylfi er búinn að skora fjögur mörk og leggja upp önnur tvö, en íslenska liðið er í öðru sæti riðilsins og getur náð fyrsta sæti með sigri á Tékkum á föstudagskvöldið.

„Ég er í fínu formi. Við erum búnir að æfa í síðustu viku strákarnir og erum í góðu formi allir sem einn,“ segir Gylfi við Vísi.

Hann fór á kostum með Swansea í ensku úrvalsdeildinni í vetur og skoraði sjö mörk og lagði upp tíu. Í heildina kom hann að þriðjungi marka Swansea-liðsins sem bætti sinn besta árangur í úrvalsdeildinni.

„Ég er mjög ánægður með tímabilið. Það gekk vel hjá mér. Ég var kannski smá svekktur með að vera meiddur en ég náði að spila flesta leiki. Ég er mjög ánægður og sé því ekki ástæðu til að fara núna,“ segir Gylfi, en þessi meiðsli eru ekkert að hrjá hann í aðdraganda Tékkaleiksins.

„Ég fékk 10-12 daga í frí og finn ekki fyrir neinu eins og er,“ segir hann.

Tékkneska liðið er á toppi riðilsins með þrettán stig eftir fimm leiki, en það vann fyrri viðureign liðanna í Tékklandi, 2-1.

„Tékkarnir eru mjög sterkir sem lið en það eru nokkrir sem skara fram úr þarna. Það er erfitt að brjóta á þá niður. Þeir eru að fá á sig svolítið af mörkum en þeir eru góðir fram á við og ná að knýja fram sigur í nánast hverjum einasta leik,“ segir Gylfi Þór Sigurðsson.


Tengdar fréttir

Ætla ekki að líkja mér við Beckham

Jóhann Berg Guðmundsson gæti söðlað um í sumar en áhugi er á honum víða eftir gott tímabil. Þjálfari hans líkti honum við David Beckham og hefur honum verið svolítið strítt eftir það. Hann segir strákana ætla sér stóra hluti gegn Tékkum í Dalnum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×