Enski boltinn

Petr Cech vill fara til Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech.
Petr Cech. Vísir/Getty
Petr Cech lauk tímabilinu með því að fá á sig tvö mörk á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið og nú bíða margir spenntir eftir því að sjá með hvaða liði tékkneski landsliðsmarkvörðurinn spilar á næsta tímabili.

Petr Cech hittir forráðamenn Chelsea í dag til þess að ræða framtíð sína og þann vilja sinn að fara frá félaginu til liðs þar sem hann fær að spila. Málin ættu því að skýrast eftir fundinn í dag.

BBC og Sky Sports hefur heimildir fyrir því að Petr Cech vilji helst fara til nágrannana í Arsenal en það er jafnframt á hreinu að ensku meistararnir vilja helst ekki sjá hann fara til samkeppnisaðila nema að þeir fái enskan leikmann í staðinn.

Frönsku meistararnir í Paris Saint-Germain hafa einnig áhuga á Petr Cech sem gæti kostað þá í kringum ellefu milljónir punda sé tékkneski markvörðurinn til í að skella sér í franska boltann. Chelsea hefur mestan áhuga á því að selja hann til Parísar samkvæmt fréttum enskra fjölmiðla.

Petr Cech hefur verið í ellefu ár hjá Chelsea en hann á nú ár eftir af samningi sínum við félagið. Hann hefur komið sér vel fyrir í London með fjölskyldu sinni og þar vill hann helst búa áfram.

Petr Cech var varamarkvörður Thibaut Courtois á nýloknu tímabili eftir að hafa verið aðalmarkvörður liðsins tíu ár þar á undan. Hann varð enskur meistari í fjórða sinn á dögunum síðan að hann kom til félagsins frá Sparta Prag árið 2004.

Cech fékk þó ekki verðlaunapening að þessu sinni því hann spilaði aðeins sex leiki með Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.

Petr Cech horfir hér á Kolbein Sigþórsson skora hjá honum á föstudagskvöldið.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×