Fótbolti

Eiður Smári: Stefnan hjá Bolton á ekki bara að vera að halda sér uppi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen var eftirsóttur af fjölmiðlum í morgun.
Eiður Smári Guðjohnsen var eftirsóttur af fjölmiðlum í morgun. vísir/valli
Eiður Smári Guðjohnsen var mættur á æfingu íslenska landsliðsins í morgun, en strákarnir okkar mæta Tékkum í undankeppni EM 2016 á föstudaginn.

Eiður kom af krafti inn í íslenska liðið á ný þegar strákarnir unnu Kasakstan í lok mars, en þar skoraði Eiður sitt 25. landsliðsmark.

Hann hætti við að leggja skóna á hilluna síðasta sumar og gekk í raðir Bolton í ensku B-deildinni, en síðasta ár hefur verið nokkuð gott hjá honum.

Eiður byrjaði að spila aftur og sló í gegn hjá Bolton þar sem hann skoraði fimm mörk í 19 leikjum. Þá eignaðist hann sitt fjórða barn nýverið.

Eigum að stefna hærra

„Þetta hefur verið gott í fótboltanum miðað við hvernig staðan var fyrir ári síðan. Þá var ekki vitað hvert þetta myndi stefna,“ sagði Eiður Smári við íþróttadeild í morgun.

„Miðað við að koma til Bolton í lok desember var þetta gott. Ég spilaði fullt af leikjum sem var mjög fínt,“ sagði Eiður sem verður að öllum líkindum áfram hjá liðinu.

Bolton var í miklum vandræðum við botn deildarinnar þegar Eiður kom, en það sigldi upp töfluna eftir að Eiður gekk í raðir liðsins.

„Það var fínt að halda okkur uppi en stefnan hjá Bolton ætti að vera meiri en að halda okkur bara uppi í B-deildinni,“ sagði Eiður.

Aðeins of langt á milli leikja

Eiður er í fínu formi og spenntur fyrir leiknum á föstudaginn, en hann viðurkennir þó að standið gæti verið betra.

„Standið er fínt, en tímasetningin á leiknum er ekki alveg sú besta þar sem deildin kláraðist annan maí, fyrir rúmum mánuði síðan,“ sagði Eiður sem er þó klár í slaginn.

„Ég tók smá hvíld fyrstu dagana eftir tímabilið til að hlaða batteríin og kom mér svo af stað aftur,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×