Fótbolti

Ögmundur: Geri ráð fyrir því að vera markmaður númer eitt hjá Hammarby

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ögmundur hefur leikið fjóra A-landsleiki.
Ögmundur hefur leikið fjóra A-landsleiki. myndasafn ksí
Ögmundur Kristinsson var mættur á æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun og var að reima á sig takkaskóna þegar blaðamaður Vísis tók hann tali.

„Það er alltaf gaman að koma og forréttindi að taka þátt í þessum landsliðsverkefnum. Ég hlakka til,“ sagði Ögmundur en framundan er leikur gegn Tékklandi í undankeppni EM 2016 á föstudaginn. En gerir Ögmundur sér vonir um að fá tækifæri á föstudaginn?

„Maður gerir sitt besta á æfingum og síðan eru það þjálfararnir sem taka ákvörðun um það,“ sagði markvörðurinn sem er nýbúinn að semja við sænska úrvalsdeildarliðið Hammarby en þar hittir hann fyrir félaga sinn í landsliðinu, Birki Má Sævarsson.

„Ég er ánægður með þessi vistaskipti. Það er spennandi verkefni framundan og ég hlakka til að takast á við nýja áskorun.

„Ég vonast fyrst og fremst eftir því að spila meira en ég gerði hjá Randers, standa sig vel og reyna að komast lengra á fótboltaferlinum,“ sagði Ögmundur en hann lék aðeins tvo leiki með Randers í dönsku úrvalsdeildinni á nýafstöðnu tímabili.

Hammarby seldi nýlega aðalmarkvörðinn sinn, Johannes Hopf, til Genclerbirligi í Tyrklandi og gerir Ögmundur ráð fyrir að taka stöðu hans þegar hann verður orðinn löglegur með liðinu um miðjan júlí.

„Þeir eru búnir að selja fyrsta markmanninn sinn og taka mig inn í stað hans þannig að ég geri ráð fyrir að ég verði markvörður númer eitt. En ég þarf að vinna fyrir því og standa mig,“ sagði Ögmundur sem fór til Stokkhólms í síðustu viku til að skrifa undir hjá Hammarby sem er í 11. sæti sænsku deildarinnar þegar 13 umferðir eru búnar.

Um það bil ár er liðið síðan Ögmundur hleypti heimdraganum og fór í atvinnumennsku. Þótt hann hafi spilað lítið hjá Randers segir hann reynsluna af atvinnumennskunni vera góða.

„Þetta er frábær reynsla og þetta er allt annað en hérna heima. Það reynir á þegar maður er ekki að spila en það styrkir mann bara,“ sagði Ögmundur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×