Enski boltinn

Shearer: Kane á að byrja inn á í landsliðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Kane fagnar einu þriggja marka sinna gegn Leicester í gær.
Harry Kane fagnar einu þriggja marka sinna gegn Leicester í gær. vísir/getty
Alan Shearer, markahæsti leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar, segir að Harry Kane eigi að fá tækifæri í byrjunarliði enska landsliðsins í næstu leikjum.

Shearer lét þessa skoðun sína í ljós í Match of the Day á BBC í gær en hann er einn af sérfræðingum þáttarins.

„Mér finnst að Roy Hodgson ætti að byrja með hann. Hann hefur séð hann spila nógu oft, hann veit hvað í honum býr og miðað við formið sem hann er í mun hann skora mörk og ná vel saman við Wayne Rooney,“ sagði Shearer sem skoraði 30 mörk í 63 landsleikjum fyrir England á sínum tíma.

Kane var valinn í enska landsliðshópinn sem mætir Litháen í undankeppni EM 2016 á föstudaginn og Ítalíu í vináttulandsleik á þriðjudaginn eftir viku. Kane hefur ekki enn leikið A-landsleik en á fjölda landsleikja að baki fyrir yngri landslið Englands.

Kane, sem er 21 árs, hefur slegið eftirminnilega í gegn í vetur en hann hefur raðað inn mörkum síðan hann vann sér sæti í byrjunarliði Tottenham. Framherjinn skoraði m.a. þrennu í sigrinum á Leicester í gær og er orðinn markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar með 19 mörk.

Shearer er mjög hrifinn af Kane en þeir hafa stundum verið bornir saman á síðustu mánuðum.

„Hann byrjaði ekki að spila reglulega fyrr en í nóvember en er orðinn markahæstur í deildinni með 19 mörk. Hann skorar alls konar mörk. Ég er mikill aðdáandi hans,“ sagði Shearer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×