Íslenski boltinn

Kristján Flóki búinn að skrifa undir þriggja ára samning við FH

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kristján Flóki Finnbogason klæðist aftur búningi FH þegar hann kemur heim frá Rúmeníu.
Kristján Flóki Finnbogason klæðist aftur búningi FH þegar hann kemur heim frá Rúmeníu. mynd/fótbolti.net
Kristján Flóki Finnbogason, framherji U19 ára landsliðs Íslands, er genginn í raðir uppeldisfélags síns FH frá FC Kaupmannahöfn í Danmörku.

Kristján Flóki er staddur í Rúmeníu með unglingalandsliðinu en foreldrar hans skrifuðu undir þriggja ára samning við FH í hans umboði í Kaplakrika í dag. Þetta hefur Vísir fengið staðfest.

Mál Kristjáns Flóka hefur verið hið undarlegasta, en Breiðablik gaf út yfirlýsingu 17. mars um að það væri búið að ganga frá þriggja ára samningi við leikmanninn.

Eins og kom fram á Vísi í dag var það ekki rétt. Samkvæmt heimildum Vísis var Kristján Flóki aldrei búinn að skrifa undir samning við Breiðablik.

Eysteinn Pétur Lárusson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Breiðabliks, vildi lítið láta hafa eftir sér um málið í samtali við Vísi í dag og vísaði í yfirlýsingu félagsins.

Þessum dansi er nú lokið og er Kristján Flóki kominn aftur heim í Kaplakrika. Hann kom við sögu í tveimur leikjum í Pepsi-deildinni með FH; einum árið 2012 og öðrum 2013, áður en hann gekk í raðir FC Kaupmannahafnar.

Þetta er ákveðið áfall fyrir Breiðablik sem er nú í smá framherjakrísu. Félagið lét Elvar Pál Sigurðsson fara til Leiknis á dögunum og þá yfirgaf Árni Vilhjálmsson auðvitað Blika í vetur og hélt í atvinnumennsku. Elfar Árni Aðalsteinsson hélt svo norður og samdi við KA.

Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, er þó enn með Ellert Hreinsson og tvítuga Bosníumanninn Ismar Tandir til að stilla upp í framlínuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×