Fótbolti

Strákarnir sungu fyrir Aron og færðu honum köku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar ræðir við fjölmiðla í Astana í morgun.
Aron Einar ræðir við fjölmiðla í Astana í morgun. Vísir/Óskar
Aron Einar Gunnarsson varð pabbi í fyrsta sinn skömmu eftir komuna til Kasakstan og íslenski landsliðsfyrirliðinn var spurður út í tilfinninguna á blaðamannafundi íslenska liðsins í morgun.

„Það var skrítið fyrir mig að geta ekki verið hjá henni. Það var sameiginleg ákvörðun hjá okkur að ég færi í þennan leik því þetta er augljóslega mjög stór leikur fyrir okkur upp á framhaldið í keppninni," sagði Aron Einar.

„Það var samt yndisleg tilfinnig að verða pabbi. Það var samt jafnframt erfitt að sætta sig við það að missa af þessu því auðvitað vildi ég vera þarna þegar sá litli fæddist. Svona er þetta bara og ég get ekki breytt neinu núna," sagði Aron.

Strákarnir í íslenska liðinu héldu veislu fyrir Aron í gærkvöldi til að halda upp á fæðingu sonar hans. Hann fékk köku og svo var sungið fyrir hann.

„Þetta kom mér algjörlega á óvart en mér leið mjög vel með þetta hjá þeim. Það er frábært að strákarnir voru að hugsa til mín og styðja mig í þessu. Ég bjóst við því að Lars Lagerbäck myndi syngja líka en það gerðist ekki," sagði Aron hlæjandi.

„Þetta var mjög gott hjá strákunum og starfsliðinu. Ég held að Þorgrímur Þráinsson hafi verið maðurinn á bak við þetta allt saman. Mér leið mjög vel á eftir," sagði Aron Einar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×