Fótbolti

Frá íslensku, yfir á ensku og loks á rússnesku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá æfingu íslenska liðsins í Astana.
Frá æfingu íslenska liðsins í Astana. Vísir/ÓskarÓ
Blaðmannafundurinn hjá íslenska landsliðinu var svolítið skrautlegur þótt ekki sé meira sagt. Þar voru mættir íslenskur blaðamennirnir sem eru hér úti sem og fullt af fjölmiðlafólki frá Kasakstan.

Ómar Smárason. fjölmiðlafulltrúi íslenska liðsins, stjórnaði umferðinni af sinni alkunnu snilld en hann var með túlk með sér. Sú kona stóð sig vel og var ekki lengi að þýða hlutina yfir á rússnesku. Hvað hún sagði vitum við þó ekki sem tölum ekki rússnesku.

Það voru síðan bara íslensku blaðamennirnir sem spurðu spurninga á fundinum og þær voru allar settar fram á íslensku.

Ómar þurfti þá að þýða þær og svörin yfir á ensku áður en túlkurinn gat þýtt þetta fyrir Kasakana á fundinum.

Þegar aðeins var liðið á fundinn þá kom Heimir Hallgrímsson, annar þjálfara íslenska liðsins, með þá tillögu að þeir myndu bara svara á ensku.

Aðalástæðan fyrir utan að gera Ómari lífið auðveldara þá myndi minna tapast í þýðingu miðað við í byrjun fundarins þegar allt fór frá íslensku, yfir á ensku og loks yfir á rússnesku.

Þegar íslensku blaðamennirnir höfðu spurt sinna spurninga kom vandræðaleg þögn og ekkert heyrðist frá Kasökunum. Skömmu síðar ákvað umsjónarmaður blaðamannfundarins að slíta honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×