Skoðun

Mary Poppins í partýlandi

Saga Garðarsdóttir skrifar
Það eru allir svo hressir. Í blöðunum segir mér hresst fólk hvað það borðar hressandi morgunmat og í útvarpinu malar hresst fólk í endalausri útöndun um hvað það sé hresst og hvað það sé hressandi að vera hress og les hressandi fréttir í blöðunum um hvað hressa fólkið fær sér í morgunmat. Það er mjög hressandi. Ég hressist svo endanlega þegar hressa fólkið birtist mér ljóslifandi í sjónvarpinu skælbrosandi, beislitað og hresst frá toppi til táar. Það sé stuð. Það er alls staðar stuð. Þetta er partýland. Og allir eru með skemmtiatriði.

Nú stendur til að skera ríflega niður til Ríkisútvarpsins og yfirvofandi uppsagnir eru óhressandi staðreynd. Hressa fólkið getur þó prísað sig sælt yfir eigin hressleika því meira að segja þegar engir peningar virðast vera til má alltaf borga hressu fólk fyrir að vera hresst og gefa öðru hressu fólki milljónir og spjalla við það á hressu nótunum – löngu áður en tímabært er að vera hress, á sunnudögum.

Það sem hins vegar gerir skemmtiatriði skemmtileg er það sama og bjargar jólunum frá því að vera mjög pirrandi - þau eru tilbrigði. Tilbrigði eru skemmtileg. Það sem er fágætt er dýrmætt og það óvanalega er aðlaðandi. Surtsey er dýrmæt af því að þar er enginn, Geirfinnur er spennandi því hann er týndur og Sinfóníuhljómsveit Íslands er meira ómissandi en Frostrósir þó færri mæti og enginn sé í pallíettudragt. Og í heimi hins gengdarlausa hressleika eru leiðindi jólin.

Á laugardaginn hlaut Jórunn Sigurðardóttir íslenskuverðlaun Jónasar Hallgrímssonar fyrir framúrskarandi menningaumfjöllun á blæbrigðaríkri og kjarnyrtri íslensku. Við það tækifæri minnti hún á að almannaútvarp getur aldrei verið fyrirtæki heldur er það alltaf stofnun í samfélaginu.

Ríkisútvarpið er í þeirri frábæru aðstöðu að þurfa ekki eingöngu að binda sig við auglýsingavæna stuðþætti sem sáldra fríkeypis bíómiðum á hressa hlustendur sína heldur hefur það dýrmætt svigrúm til að búa til vandaða alvarlega þætti sem fáir sjá og heyra. RÚV hefur með öðrum orðum leyfi og meira að segja skyldu til að vera óhresst. Því jafnvel þótt Mary Poppins mæli með matskeið af sykri með meðalinu er ég nokkuð viss um að engin heilbrigð barnfóstra eða læknir með einhverja vottaða háskólagráðu mæli með sykri í allt.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×