Skoðun

Af samkeppnishvötum í heilbrigðis- og menntamálum

Páll Gunnar Pálsson skrifar

Í aðsendum greinum á vefnum visir.is er að finna athyglisverða grein frá 14. september sl. eftir Benedikt Ó. Sveinsson lækni, undir yfirskriftinni „Er fákeppni að sliga Landspítalann?“. Þar rekur Benedikt frá sínum sjónarhóli sögu spítalasameininga og vekur á því athygli að með sameiningunum hafi samkeppnishvötum í spítalarekstri verði eytt. Færir hann meðal annars rök fyrir því að skortur á samkeppni kunni að vera rót þess mannauðsvanda sem Landspítalinn stendur frammi fyrir.



Grein Benedikts er allrar athygli verð. Hún minnir okkur á að þær leiðir sem yfirvöld hafa farið hér á landi í þróun heilbrigðiskerfisins eru mjög frábrugðnar þeim leiðum sem frændur okkar Svíar hafa farið.

Þarlend yfirvöld hafa lagt á það áherslu að nýta krafta samkeppninnar til þess að tryggja góða og hagkvæma heilbrigðisþjónustu, t.d. með því að auka valfrelsi sjúklinga. Uppbygging menntakerfisins þar í landi er byggð á sömu forsendum. Þetta gera Svíar án þess að slá í nokkru af norrænni velferðarstefnu.



Stjórnvöld hér á landi hafa því miður ekki haft sömu stefnu að leiðarljósi. Liggur við að sú litla samkeppni sem finna má á þessum sviðum sé litin hornauga. Fyrir einhvern misskilning ber hugtakið einkavæðingu fljótt á góma þegar talið berst að þessu.

Samkeppnisyfirvöld hér á landi vilja stuðla að umræðu um samkeppnishvata í heilbrigðis- og menntamálum. Á ráðstefnu sem haldin verður föstudaginn 27. september nk. verður fjallað sérstaklega um þessi álitaefni.



Á meðal þátttakenda í vinnustofu um þetta verða Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, Kristina Geiger, aðstoðarforstjóri sænska samkeppniseftirlitsins, Oddur Steinarsson, læknir í Gautaborg, Viktor Norman, prófessor við Norges Handelshöjskole og Cristiana Vitale, hagfræðingur hjá OECD. Vilhjálmur Egilsson, rektor á Bifröst, stýrir vinnustofunni.



Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vef Samkeppniseftirlitsins, www.samkeppni.is.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×