Körfubolti

Flensuskór Jordan seldir á rúmar 12 milljónir króna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Jordan í flensuleiknum fræga.
Jordan í flensuleiknum fræga. mynd:nordic photos/getty
Michael Jordan er fyrir nokkru hættur að leika körfubolta en hann er ekki hættur að setja met því hann seldi skóna sem hann klæddist í „flensuleiknum“ fræga 1997 fyrir metfé á uppboði um helgina.

Skórnir seldust á 104.765 dali sem er yfir 12,2 milljónir króna. JÞetta er dýrasta skópar sem selt hefur verið eftir að íþróttamaður klæddist þeim í leik en Jordan átti fyrra metið líka sem var 31.070 dalir eða rúmlega 3,6 milljónir króna á núvirði.

Hart var barist um kaupin á skónum sem Jordan klæddist 11. júní 1997 þegar Chicago Bulls lögðu Utah Jazz 90-88. Jordan var veikur í leiknum og skoraði 38 stig, tók 7 fráköst, gaf 5 stoðsendingar, stal þremur boltum og varði eitt skot í leiknum sem var fimmti leikurinn í úrslitunum sem Bulls vann 4-2.

Jordan gaf Preston Truman, einum boltastráka Utah Jazz skóna eftir leikinn fræga og hafði hann geymt skóna í bankahólfi í 16 ár þar til hann ákvað að selja skóna.

„Mér fannst ekki rétt að eitthvað svona svalt og stór hluti af sögu NBA sæti í bankanum mínum lengur,“ sagði Truman við bandarísku íþróttastöðina ESPN.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×