Körfubolti

Kidd hefur enn fullan stuðning rússnesku eigendanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jason Kidd.
Jason Kidd. Mynd/NordicPhotos/Getty
Það gengur ekkert á fyrsta ári Jason Kidd sem þjálfari í NBA-deildinni í körfubolta en Brooklyn Nets tapaði sínum fimmta leik í röð í gær og er nú með lélegasta árangurinn að öllum liðunum í Atlantshafsriðli Austurdeildarinnar.

Brooklyn Nets er með dýrasta liðið í NBA-deildinni og rússneski eigandinn Mikhail Prokhorov þarf að borga himinháa skatta til að hafa alla þessa stjörnuleikmenn í liðinu. Tímabilið mun líklega kosta Mikhail Prokhorov í kringum 190 milljónir dollara eða rúmlega 23 milljarða íslenskra króna.

Deron Williams, Brook Lopez, Andrei Kirilenko og Jason Terry misstu allir af leiknum í nótt vegna meiðsla en meiðsli leikmanna afsaka það þó ekki að liðið sé bara búið að vinna 3 af 13 leikjum sínum á leiktíðinni.

Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að Jason Kidd hafi þrátt fyrir skelfilegt gengi enn fullan stuðning frá rússnesku eigendum liðsins og að samstarf Kidd og aðstoðarmanns hans, Lawrence Frank, gangi nú betur.

„Þetta er okkur að kenna og ekki bara Jason að kenna. Hann á ekki skilið að taka alla skömmina á sig," sagði Kevin Garnett og Paul Pierce talaði á svipuðum nótum.

„Allir þurfa að taka ábyrgð, leikmenn og þjálfarar. Við erum í þessum saman og þetta er ekki Kidd að kenna heldur okkur öllum," sagði Pierce.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×