Skoðun

Betri Reykjavík fyrir alla

Jón Gnarr skrifar
Lýðræðisbyltingar þurfa ekki að vera blóðugar eða háværar. Þvert á móti geta þær verið þægilegar og hljóðlátar.

Í byrjun október í fyrra opnaði Reykjavíkurborg samráðsvefinn Betri Reykjavík. Þar gefst íbúum í Reykjavík tækifæri til þess að láta til sín taka varðandi framkvæmdir og þjónustu í höfuðborginni. Borgarbúar geta sett hugmyndir sínar á vefinn um það sem betur má fara. Enn fremur geta þeir skoðað hugmyndir annarra, stutt þær eða hafnað og skrifað rök með eða á móti hugmyndum. Skráðir notendur geta einnig fylgst með ferli þeirra hugmynda sem þeir hafa sett inn eða stutt á vefnum. Mjög einfalt er að skrá sig á vefinn.

Stjórnsýsla Reykjavíkurborgar skuldbindur sig til að taka hugmyndir sem mests fylgis njóta á Betri Reykjavík til formlegrar afgreiðslu í fagráðum borgarinnar. Nýjar hugmyndir hafa verið teknar af Betri Reykjavík í hverjum mánuði síðan vefurinn opnaði og er stjórnsýsla borgarinnar nú að fara yfir tugi hugmynda frá borgarbúum. Sumar hafa þegar verið afgreiddar.

Nú hefur verið ákveðið að setja 300 milljónir í svokallaða hverfapotta. Þessum fjármunum er skipt hlutfallslega eftir mannfjölda í hverfum borgarinnar. Upphæðin er viðbót við þá fjármuni sem varið er til framkvæmda og viðhalds í hverfum Reykjavíkur á hverju ári.

Í þessu verkefni geta borgarbúar komið með hugmyndir að smærri nýframkvæmdum og viðhaldsverkefnum. Hægt er að setja hugmyndir að slíkum verkefnum inn á Betri Reykjavík undir hnappnum Betri hverfi.

Eftir að íbúar hafa vegið og metið hugmyndirnar verða efstu hugmyndirnar kostnaðarmetnar af fagsviðum borgarinnar. Síðan verður þeim stillt upp með aðkomu hverfaráða Reykjavíkurborgar í rafrænum kosningum sem munu fara fram 8.-13. mars nk. Það verður í fyrsta sinn sem slíkar kosningar fara fram á Íslandi. Íbúar Reykjavíkur sem orðnir eru 16 ára geta þá kosið um ákveðin verkefni í sínum hverfum.

Ég vil hvetja alla Reykvíkinga til að taka þátt í þessu með okkur. Notum þetta frábæra tæki, betrireykjavik.is, til að gera Reykjavík að enn betri borg.




Skoðun

Sjá meira


×