Skoðun

Betri bæi

Logi Már Einarsson skrifar
Óbyggðir landsins eru okkur dýrmætar og mikilvægt að huga vel að því hvernig um þær er gengið. Þetta hefur mönnum orðið æ ljósara og hefur megináhersla umhverfisverndar á Íslandi snúist um víðernið. Það er þó ekki síst við skipulagningu þéttbýlis sem ná má árangri í umhverfisvernd. Skynsamleg þróun bæja getur skipt sköpum.

Ýmislegt hefur farið úrskeiðis í uppbyggingu þéttbýlis síðustu áratugi. Við höfum að miklu leyti byggt upp samkvæmt hugmyndafræði hinnar bandarísku bílaborgar, þar sem lykilhugtökin eru flokkun og aðgreining. Borg og bæir eru gisin, innviðir dýrir, almenningssamgöngur lélegar og almenningsrými oft illa skilgreind. Þá höfum við byggt okkur stærra íbúðarhúsnæði en skynsamlegt má teljast. Markmiðið hlýtur að vera að snúa af þessari braut.

Stjórnvöld hafa ekki horft á hlutina í nógu stóru samhengi og þann ávinning sem í því felst. Arkitektar bera þó auðvitað líka sína ábyrgð á þessari þróun. Sum okkar hafa ýmist villst af leið eða verið of leiðitöm í ofsaþenslu síðustu ára. Önnur hafa hins vegar hvergi hvikað frá gildum sínum og víða má sjá byggingar og skipulagssvæði sem bera metnaði og fagmennsku mjög gott vitni.

Byggingarlist lýsir vel menningarstigi og viðhorfi þjóðfélaga á hverjum tíma. Því eigum við að leggja áherslu á að góður arkitektúr einkenni þéttbýli. Góð byggingarlist auðgar umhverfið og hvetur til varðveislu arfleifðar okkar. Hún er aðlaðandi og fúnksjónell. Góður arkitektúr einkennist af og tekur tillit til menningar okkar og sérkenna.

Í framtíðinni þurfa orku- og umhverfisvænar lausnir einnig að einkenna góða byggingarlist.

Góð byggingarlist og skipulag auka lífsgæði, stuðla að verðmætasköpun og eru því hagkvæm.

Í þeirri viðleitni að snúa til betri vegar óskar Arkitektafélag Íslands, sem nú fagnar 75 ára afmæli, eftir aukinni og markvissri samvinnu við ríki, sveitarfélög og almenning um mótun skýrrar sýnar til langrar framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×