Enski boltinn

Boateng vongóður um að komast til Bayern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Boateng er hér til vinstri á myndinni.
Boateng er hér til vinstri á myndinni. Nordic Photos / Getty Images
Þýski landsliðsmaðurinn Jerome Boateng, leikmaður Manchester City á Englandi, segist vera vongóður um að komst til Bayern München áður en nýtt keppnistímabil hefst í sumar.

Jupp Heynckes, nýr stjóri Bayern, er sagður hafa augastað á Boateng til að styrkja varnarleik liðsins sem var slakur á nýliðinni leiktíð. En City vill ekki láta Boateng fara fyrir minna en 25 milljónir evra.

„Ég verð að vera þolinmóður og í raun ekkert meira að segja um málið,“ sagði Boateng við þýska fjölmiðla. „Ég er að einbeita mér að mínum æfingum og vona að það verði hægt að finna lausn á þessu fljótlega. Ég hef trú á að svo verði.“

Boateng gekkst nýverið undir aðgerð vegna meiðsla á hné en segist nú vera á góðum batavegi. „Ég finn ekki fyrir neinum sársauka og er nú að vinna í því að endurheimta fyrri styrk og kraft.“

Varnarmennirnir Alex hjá Chelsea og Gabriel Milito hjá Barcelona hafa einnig verið orðaðir við Bayern að undanförnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×