Skoðun

Heilagra manna sögur

Þröstur Ólafsson skrifar

Mig rak í rogastans þegar ég las greinarstúf eftir nokkra þekkta lögmenn sem skírskotuðu til þess í málflutningi sínum að það væri „helgur réttur“ okkar að láta reyna á það til hins ítrasta, hvort okkur bæri að greiða Icesave (Fréttablaðið 19. mars sl.).



Þegar rök þrjóta og lögmenn þurfa að grípa til trúarlegra orðtaka til að réttlæta málstað sinn, þá er kominn tími til að staldra við.



Notkun hugtaka úr trúarbrögðum í pólitískri orðræðu ber ekki bara vott um rökþurrð heldur einnig að viðkomandi vilji færa umræðuna yfir á hugmyndaheim trúarbragða, þar sem trúarsetningar koma í staðinn fyrir rök.



Þjóðfélagsumræðan fer ekki lengur fram á veraldlegum rökum heldur trúarlegum. Menn flytja umræðuna aftur fyrir öld upplýsingarinnar. Þar sem rök verða ekki færð fyrir því, hvað eru helg réttindi að hvaða réttindi eru óhelg, nýta menn gjarnan orðið helgur til að koma málstað sínum á ósnertanlegan stall. Sá sem véfengir eða afneitar helgum rétti er drottinsvikari. Mestu hryðjuverk nútímans eru framkvæmd í nafni helgra dóma eða heilags réttar. Meira þarf ekki til. Það réttlætir allt, jafnvel hungur, þjáningar og dauða. Ítrustu kröfur eru orðnar að helgum rétti. Í okkar tilfelli einnig að mestri áhættu. Útrásarvíkingarnir svokölluðu tóku alltaf stærstu áhætturnar. Þeir komu okkur á vonarvöl.



Í afar góðum útvarpsþætti nú á sunnudagsmorgni sagði Jónas Jónasson frá heimsókn sinni og viðtali við írskan rithöfund í miðri borgarastyrjöld á Norður-Írlandi. Samtal þeirra barst að átökunum og hvað þyrfti til að þeim lyki. Þá sagði sá írski efnislega eitthvað á þessa leið: Sennilega þurfum við að þjást meira og lengur. Kannski þurfa mæður að bera sundurskotna syni sína á tröppur þinghússins til að stjórnmálamenn átti sig á því að gera þarf málamiðlanir og semja.



Siðaðir menn semja, hinir slást.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×