Skoðun

Berum virðingu fyrir stjórnarskránni

Inga Lind Karlsdóttir skrifar

Annað slagið hefur mér orðið hverft við nú í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings þegar sumir frambjóðendur láta í ljós að þeir vilji breyta stjórnarskránni okkar stórkostlega, bæta inn í hana hinum og þessum ákvæðum og jafnvel umbylta henni alveg.

Hér er um að ræða grundvallarlög þjóðarinnar, þau lög sem eru öðrum lögum æðri og jafnframt rót allrar annarrar lagasetningar. Eðli málsins samkvæmt er því, og á að vera, erfiðara að breyta stjórnarskránni en öðrum lögum. Svona er fyrirkomulagið af því að það skiptir máli að festa sé í grundvallarlögunum, þeim má ekki vera hægt breyta eftir því hvernig vindurinn blæs eða pólitíkin snýst.

Þrátt fyrir sögulegt umrót á Íslandi, eigum við að halda áfram að umgangast stjórnarskrána okkar af virðingu. Við megum ekki heldur vanmeta visku og vinnu undangenginna kynslóða og halda að með því að breyta stjórnarskránni, verði allt betra.

Ég vil ekki umbylta þessum grundvallarlögum okkar. Þau eru ágæt í marga staði, enda byggð á viðurkenndum grunngildum eins og mannréttindum og reglum um vald æðstu stjórnar.

Ýmsu má þó breyta og það er viðurkennd staðreynd enda hefur stjórnarskráin verið í endurskoðun allt frá árinu 1944.

Stjórnlagaþingið 2011 ætti að gera það að sínu helstu verkefnum að styrkja stöðu Alþingis, auka vægi minnihlutans og endurskoða hinn allt of langa kafla um forseta lýðveldisins. Fram hafa komið nokkrar tillögur sem lúta að þessu og þeir sem setjast á stjórnlagaþingið ættu að vega þær allar og meta og ræða saman á yfirvegaðan hátt þar til niðurstaða næst sem sátt er um.




Skoðun

Sjá meira


×