Viðskipti erlent

Iceland bætir við sig 2.500 starfsmönnum

Breska matvörukeðjan Iceland hefur keypt 51 verslun, sem áður voru reknar af Woolworths verslanakeðjunni í Bretlandi. Reiknað er með, að við kaupin bæti Iceland við sig 2.500 nýjum starfsmönnum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Baugs sem er meirihlutaeigandi Iceland. Þar segir að tilkynning um kaupin hafi komið aðeins nokkrum dögum eftir að Woolworths lokaði 200 verslunum sínum vegna greiðsluörðugleika.

„Við erum sátt við að geta látið hjólin snúast á ný á stöðum, sem hafa misst stóran smávörusala eins og Woolworths frá sér," sagði talsmaður Iceland. Woolworths fór í greiðslustöðvun í nóvember síðastliðnum, en tókst ekki að finna kaupanda að fyrirtækinu.

Iceland bauð í allar verslanir Woolworths, 815 að tölu í ágúst, en tilboðinu var hafnað, þar sem það þótti ekki ásættanlegt. Um þriðjungur verslanana 51, sem Iceland keypti nú, eru í suðurhluta Bretlands, þar af tíu í London.

Iceland matvörukeðjan, sem var stofnuð árið 1970, rekur þegar 682 verslanir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×