Skoðun

Sátt um náttúruvernd

Þórunn Sveinbjarnardóttir skrifar
Um langt árabil höfum við Íslendingar deilt harkalega um náttúruvernd og nýtingu orkuauðlinda. Í þeim deilum hafa menn gjarnan skipað sér í fylkingar og haldið því fram að tekist sé á um ósamrýmanleg sjónarmið. Annaðhvort aðhyllist landsmenn virkjun náttúruauðlinda til áframhaldandi hagvaxtar, eða náttúruvernd og þar með efnahagslega stöðnun. Þessi afstaða er bæði fjarri öllum veruleika og ólíkleg til árangurs. Það er verkefni stjórnvalda að finna bestu leiðir til þess að nýta náttúru okkar og auðlindir á þann hátt að komandi kynslóðir geti einnig bæði notið þeirra og nýtt þær. Þetta er eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Ný verkefnastjórn Í vikunni hófst ríkisstjórnin handa við þetta verk. Þá fór fram fyrsti fundur nýrrar verkefnastjórnar sem undirbýr gerð rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða. Markmið rammaáætlunarinnar er að skapa faglegar forsendur fyrir ákvarðanir um verndun og nýtingu náttúrusvæða.

Formaður stjórnarinnar er Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri í Dalvíkurbyggð, skipuð í sameiningu af umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra. Í stjórnina hafa einnig verið skipaðir valinkunnir vísindamenn og fulltrúar hagsmunasamtaka, svo sem ferðaþjónustunnar, orkufyrirtækja og umhverfisverndarsamtaka.

Starfi ljúki 2009 Lýðræðisleg vinnubrögð verða höfð að leiðarljósi í starfi stjórnarinnar og hún mun hafa víðtækt samráð við almenning og alla hagsmunaaðila á starfstíma sínum, m.a. með kynningarfundum og uppsetningu sérstakrar vefsíðu til upplýsingar um framgang verksins.

Stjórnin skal síðan skila skýrslu til umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra með heildarmati og flokkun á þeim kostum sem teknir hafa verið til umfjöllunar. Skýrslan á að vera tilbúin fyrir 1. júlí 2009 og í kjölfarið verður tillaga að rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu. Það er von mín að rammaáætlunin verði í senn grundvöllur faglegra og upplýstra ákvarðana í umhverfismálum og sátta um þennan mikilvæga málaflokk hér á landi.

Höfundur er umhverfisráðherra.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×