Gengi bréfa í bandaríska netfyrirtækinu Google er nú í fyrsta sinn komið yfir 500 dali eða rúmar 35.000 krónur á hlut. Bréf í fyrirtækinu fór hæst í 510 dali á hlut í viðskiptum dagsins á Nasdaq-markaðnum vestanhafs í gær en lokaði í 509,65 dölum. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur aldrei verið hærra.
Að sögn breska ríkisútvarpsins er helsta ástæðan fyrir hækkun á gengi bréfa í netfyrirtækinu væntingar fjárfesta um aukinn vöxt þess og meiri tekjur af auglýsingum í kassann.
Þá hefur fyrirtækið sömuleiðis hagnast á samdrætti hjá samkeppnisaðilanum Yahoo, en hagnaður fyrirtækisins á þriðja ársfjórðungi dróst saman um 38 prósent. Helsta ástæðan var samdráttur í auglýsingatekjum.