Innlent

Þúsundir kvartana vegna leigubílaaksturs en fagnar breytingum

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Daníel O. Einarsson formaður B.Í.L.S. og Bifreiðastjórafélagsins Frama fagnar drögum að reglugerð um leigubíla. Nú geti stéttin loks endurheimt virðingu sína.
Daníel O. Einarsson formaður B.Í.L.S. og Bifreiðastjórafélagsins Frama fagnar drögum að reglugerð um leigubíla. Nú geti stéttin loks endurheimt virðingu sína. Vísir/Bjarni

Samgöngustofa hefur fengið tvö hundruð ábendingar vegna leigubílaaksturs frá því ný lög tóku gildi fyrir tæpum þremur árum. Formaður tveggja félaga bifreiðastjóra segir ófremdarástand hafa ríkt á markaðnum síðan og kvartanirnar margfalt fleiri. Hann fagnar drögum að nýrri reglugerð.

Frá því ný löggjöf um leigubílaakstur tók gildi árið 2023 hafa erjur og brot tengd stéttinni verið algengt umfjöllunarefni fjölmiðla.

Daníel O. Einarsson formaður B.Í.L.S. og Bifreiðastjórafélagsins Frama varaði stjórnvöld við á sínum tíma. Þær áhyggjur hafi raungerst.

„Farþegarnir eru alltaf að segja okkur sögur af  því sem þeir hafa lent í. Það geta verið frásagnir af ofbeldi af hálfu bílstjóra, kvartanir vegna ágreinings og ákveðinni misbeitingu í verðlagi. Það er lýjandi að fá slíkar kvartanir og vita að við gerðum okkar besta til að koma í veg fyrir þessa löggjöf sem hefur skaðað leigubílaakstur á Íslandi,“ segir Daníel.

Þúsundir kvartana vegna leigubílsstjóra

Hægt er að senda Samgöngustofu ábendingar varðandi leigubílaakstur. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni barst 41 ábending árið 2023. 52 ábendingar árið 2024 og 95 á síðasta ári. Þrettán hafa verið sviptir leyfi til að aka leigubíl á tímabilinu.  Daníel segist hafa fengið mun fleiri ábendingar á tímabilinu.

„Síðustu þrjú ár eða frá því lögin um leigubílaakstur tóku gildi í apríl 2023 höfum við fengið um 20-30 kvartanir eftir hverja einustu helgi,“ segir Daníel. Það samsvarar um þrjú til fjögur þúsund kvörtunum á tímabilinu.

Hann segir að fyrir lögin 2023 hafi um fimm hundruð manns verið með rekstrarleyfi fyrir leigubílum en sú tala hefur tvöfaldast síðan samkvæmt upplýsingum Samgöngustofu. 

Ný reglugerð í smíðum

 Samgönguráðherra hefur nú birt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerðarbreytingu um leigubílaakstur. 

Þar kemur meðal annars fram að leigubílar skuli vera auðkenndir með sérstöku skráningarmerki. Eftirlitshlutverk Samgöngustofu er aukið. Merkja þarf á áberandi hátt upphafs-, mínútu- og kílómetragjöld auk heildarverðs samkvæmt verðskrá. Loks kemur fram að hafi leigubílstjóri brotið ítrekað eða alvarlega gegn hátternisreglum leigubifreiðarstöðvar sé hægt að hafna þjónustu við hann. 

Daníel fagnar breytingunni.

„Við erum ánægðir með þessar breytingar. Sérmerktar leigubifreiðar munu t.d. auka traust hjá almenningi því það er eftirlit með viðkomandi bílum. Með breytingunni mun stétt leigubílstjóra loksins geta endurheimt virðingu sína,“ segir Daníel. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×