Innlent

Harma launalækkanir í fisk­eldi á Vest­fjörðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir störf í fiskeldi hafa reynst sveitarfélögum á Vestfjörðum mjög verðmæt.
Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga segir störf í fiskeldi hafa reynst sveitarfélögum á Vestfjörðum mjög verðmæt. Vísir/vilhelm

Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga segist harma að stjórnendur Arnarlax og Arctic fish hafi tekið þá ákvörðun að lækka laun starfsfólks í fiskeldi. Sú ákvörðun mun hafa verið tilkynnt starfsfólki fyrr í mánuðinum og á að taka gildi þann 1. maí.

Í yfirlýsingu frá stjórninni segir að eitt af rökum þeirra sem stutt hafi uppbyggingu fiskeldis hér á landi sé að það skapi verðmæt störf á landsbyggðinni á tímum þar sem horft er upp á stöðugan samdrátt og niðurskurð þar, með tilheyrandi þjónustuskerðingu og fólksfækkun.

„Umrædd störf hafa verið mjög verðmæt fyrir byggðarlögin á Vestfjörðum enda um þokkalega vel launuð og sérhæfð störf að ræða. Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga lýsir yfir furðu á þeirri stefnubreytingu fyrirtækjanna að lækka laun þessara sérhæfðu og verðmætu er starfa og minnka þannig virði þeirra fyrir landsbyggðina,“ segir í yfirlýsingunni.

Stjórnin segist harma þessa ákvörðun, sem taka mun gildi á baráttudegi verkafólks.

„Stjórn Verkalýðsfélags Vestfirðinga hvetur fyrirtækin til að nýta tímann til 1. maí til að endurskoða ákvörðun sína um launalækkanir og finna aðrar leiðir til að hagræða í rekstri.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×