Skoðun

Súkkulaðisnúðurinn segir sann­leikann

Björn Ólafsson skrifar

Þegar ég var polli voru súkkulaði snúðar mikið uppáhald. Hvað er betra en snúður og köld mjólk? Á góðum degi, gat ég reddað mér pening fyrir einum snúð, og á bestu dögum átti ég fyrir nokkrum 10 aura kúlum líka. Ég er komin fast að sjötugu, svo þetta var rétt fyrir um 60 árum síðan.

Og, nú kemur punkturinn: Snúðurinn kostað 2 krónur, eða túkall. Snúðurinn þá var alveg eins og snúðurinn í dag. Snúðar eru eitt af fáu sem ekki hefur breyst á minni ævi. Árið 1981 voru klippt tvö núll af krónunni. Svo snúðarnir mínur kostuðu mig því; 2 aura í dag, eða 0,02 krónur. Nýjar krónur eins og krónan var kölluð eftir breytinguna.

Í dag kostar snúðurinn mig um 500 krónur, eða 50.000 „gamlar krónur“. Hann hefur því hækkað um 24.499% á 60 árum, m.v. minn prósentu reikning, sem ég er nokkuð viss um að réttur er.

Við hverju býst fólk?

Ég set þetta fram í ljósi þess að nú eru allir að hrópa úr sér lungun vegna um 5% verðbólgu skots. Afhverju ætli snúðurinn minn hafi hækkað svona rosalega? Í grunninn er það vegna þess að við viljum alltaf hærra kaup, og við fáum hærra kaup. Allir vilja hærra kaup, opinberir starfsmenn sem og í einkageiranum. Ríkið þarf að ná í pening til að borga launahækkanir, og þá er bara að hækka álögur á landsmenn; sem fer beint í vísitöluna. Fyrirtækin í verslun og þjónustu, hafa bara í raun eina leið til að borga hærri laun; með þvi að auka tekjur sínar með því að hækka vörur og þjónustu. Við hverju býst fólk? Hvaðan eiga tekjur launagreiðenda fyrir launahækkunum annars að koma? Nú eiga lífeyrirsjóðir í öðru hvoru fyrirtæki, og þeir gera kröfur um ávöxtun! Ruglið er algjört.

Og, svo berja verkalýðsfrömuðir sér og brjóst og heimta hærri laun af því allt hafi hækkað svo mikið. – Svona hefur hamsturshjólið nú snúist alla mína tíð. Maður heyrir sömu tuggurnar áratugum saman, ekkert breytist, hamstrarnir hafa óendanlegt úthald. Ef ég verð svo heppin að ná inn max 20 árum í viðbót, þá mun snúðurinn minn kosta mig tæpar 1.500 kr eða 150.000 kr gamlar. Ég hef alltaf talið að maður sem gerir sömu vitleysuna oftar en 2x í tregari kantinum, en 60x og búast við annarri niðurstöðu en í hin 59 skiptin; óviðbjargandi. Já, það er ekki öll vitleysan eins.

Höfundur er ellilífeyrisþegi.




Skoðun

Sjá meira


×