Viðskipti erlent

Tugum þúsunda sagt upp hjá Amazon

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Um ein og hálf milljón manna starfar fyrir Amazon.
Um ein og hálf milljón manna starfar fyrir Amazon. Getty

Tæknirisinn Amazon ætlar í niðurskurð og geta sextán þúsund starfsmenn fyrirtækisins átt von á uppsagnarbréfi. Tilkynnt var um niðurskurðinn nokkrum klukkustundum eftir að tölvupóstur sem innihélt trúnaðarupplýsingar var sendur á starfsfólkið fyrir mistök.

Í gærkvöld var tölvupóstur sendur út sem gaf til kynna að fjöldi starfsmanna risans í Bandaríkjunum, Kanada og Kosta Ríka yrði sagt upp. BBC hefur skilaboðin undir höndum en þeim var eytt fljótlega eftir birtingu. 

Í morgun tilkynntu forsvarsmenn Amazon að þeir vildu koma í veg fyrir skrifstofuveldi innan fyrirtækisins. Ekki liggur fyrir í hvaða löndum eigi að skera niður starfsemina. Alls eru um 1,5 milljón manns sem starfa hjá Amazon út um allan heim, þar af 350 þúsund í skrifstofuvinnu.

Aðstoðarmaðurinn sendi fundarboð

Aðstoðarmaður Colleen Aubrey, aðstoðarforstjóra Amazon Web Services (AWS), sendi fyrir mistök fundarboð í gærkvöldi sem bar titilinn „Senda tölvupóst vegna Dawn-verkefnisins“ (e. project Dawn). Um er að ræða þekkt hugtak fyrir uppsagnir innan Amazon. Fjöldi starfsmanna fékk sent umrætt fundarboð.

Í fundarboðinu kom fram að segja ætti fólki upp, en það væri framhald á þeirri vinnu sem hafi verið í gangi í fyrirtækinu. Markmiðið er að fækka stjórnunarlögum, auka ábyrgð og draga úr skrifræði. 

„Breytingar eru erfiðar fyrir alla. Þessar ákvarðanir eru erfiðar og teknar af yfirvegun þegar við undirbúum fyrirtækið og AWS fyrir framtíðarárangur,“ sagði í fundarboðinu.

Að sögn heimildarmanns BBC hafði starfsfólkið búist við uppsögnum í margar vikur. Í október var fjallað um að til stæði hjá fyrirtækinu að segja upp fjórtán þúsund manns vegna tækifæra til að nota gervigreind.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×