Skoðun

Eru mann­réttindi mar­tröð?

Þórarinn Snorri Sigurgeirsson skrifar

Í nýlegri skoðunargrein á Vísi fjallar Gunnar Salvarsson, fyrrverandi skólastjóri, um skóla án aðgreiningar undir fyrirsögninni „martraðakenndur draumur“. Slík gífuryrði ein og sér sýna glöggt að með óvarlegum og illa ígrunduðum ummælum sínum í Kastljósi og víðar hefur Inga Sæland – barna- og menntamálaráðherra þessa lands – greinilega gefið opið skotleyfi á stefnuna sem kennd er við skóla án aðgreiningar.

Stöldrum hér aðeins við. Skóli án aðgreiningar er í grunninn bara sú hugsun að börn – öll börn, skuli eiga rétt á menntun í samkurli við jafnaldra sína. Í reglugerð um stuðning við nemendur með sérþarfir í grunnskóla er þessu lýst svo: „Með skóla án aðgreiningar er átt við grunnskóla í heimabyggð eða nærumhverfi nemenda þar sem komið er til móts við náms- og félagslegar þarfir nemenda í almennu skólastarfi með manngildi, lýðræði og félagslegt réttlæti að leiðarljósi.“

Það kemur auðvitað ekki á óvart að framkvæmd þessarar stefnu skuli liggja undir gagnrýni. Skóli án aðgreiningar krefst aukins stuðnings inn í skólanna sem hingað til hefur skort á. Þessi skortur á nægum stuðningi hefur skapað aukið álag á kennarastéttina og skólastjórnendur, og var nú varla á bætandi. Til að skóli án aðgreiningar geti fúnkerað almennilega – fyrir fötluð börn, börn af erlendum uppruna eða aðra jaðarsetta hópa barna – þarf að efla skólastarfið með aðkomu fjölbreyttra starfskrafta; þroskaþjálfa, túlka, stuðningsfulltrúa o.s.frv. Um það held ég að flest geti verið sammála um sem þekkja til málsins.

Það sem kemur hinsvegar á óvart er að þessi aukna stuðningsþörf eða vanmáttuga framkvæmd stefnunnar virðist ekki vera efst í huga hjá þeim gagnrýnisröddum sem nú heyrast hæst. Yfirlýsingar Ingu Sæland og grein Gunnars Salvarssonar ráðast beint gegn hugmyndinni sjálfri. Skóli án aðgreiningar er sögð falleg draumsýn en „fjarskalega illa ígrunduð“ eða úrelt eða úr sér gengin stefna; „barn síns tíma“. Þar að auki hefur Inga Sæland fundið í skóla án aðgreiningar blóraböggul fyrir meintan lakan námsárangur eða lélega lestrarkunnáttu ungra drengja. Og látið í veðri vaka að lausnin sé því auðvitað sú að vinda ofan af skóla án aðgreiningar.

Það hefur opnast skotleyfi á skóla án aðgreiningar – en þorir fólk að segja það upphátt sem andstæðan raunverulega er? Hinn möguleikinn, sem Inga Sæland og fleiri eru nú tekin að tala opinskátt fyrir, hlýtur þá að vera skóli MEÐ aðgreiningu. Viljum við aðgreina börn? Auka á aðgreiningu á fötluðum og ófötluðum börnum? Auka einangrun barna með erlendan uppruna? Að skólar skuli eingöngu vera fyrir „venjuleg“ börn?

Látum ekki skort á stuðningi og slælega framkvæmd verða til þess að við færum samfélagið aftur um ár og áratugi þegar kemur að jafnrétti, mannúð og samhug.

Skóla án aðgreiningar þarf að efla – ekki tala niður í svaðið.

Höfundur starfar að hagsmunum fatlaðs fólks.




Skoðun

Skoðun

Hvað er velsældar­hag­kerfið?

Kristín Vala Ragnarsdóttir,Ásgeir Brynjar Torfason,Brynhildur Davíðsdóttir,Dóra Guðrún Guðmundsdóttir,Silja Elvarsdóttir skrifar

Sjá meira


×