Skoðun

Er á­kveðin stétt sér­fræðinga ekki lengur mikil­væg?

Sædís Ósk Harðardóttir og Helga Þórey Júlíudóttir skrifa

Hlutverk kennara hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum samhliða sífellt fjölbreyttari nemendahópi. Í dag er ekki lengur gert ráð fyrir að einn kennsluháttur henti öllum, heldur þarf skólastarf að byggjast á sveigjanleika, faglegri greiningu og markvissum stuðningi. Í því samhengi gegna sérmenntaðir sérkennarar lykilhlutverki. Nýr menntamálaráðherra hefur réttilega bent á að það sé ekki á valdi eins kennara að koma til móts við allar þær ólíku þarfir sem nemendur í dag hafa.

Sérkennarar eru sérfræðingar sem hafa sérhæft sig í að aðlaga námsumhverfi, kennsluhætti og námsefni að ólíkum þörfum nemenda. Þeir vinna út frá faglegri þekkingu á námsörðugleikum, félags- og tilfinningalegum áskorunum, menningarlegum fjölbreytileika og öðrum þáttum sem geta haft áhrif á námsframvindu og líðan nemenda. Markmið sérkennslu er ekki einangrun heldur inngilding með því að skapa aðstæður þar sem allir nemendur fá raunhæf tækifæri til að blómstra.

Nýr menntamálaráðherra hefur bent á að stór hópur nemenda nái ekki að blómstra í hefðbundnu skólastarfi nútímans og að hlutverk kennarans hafi gjörbreyst með aukinni fjölbreytni nemendahópsins. Þessi staðreynd undirstrikar mikilvægi þess að skólakerfið byggi á sérfræðilegri þekkingu. Sérkennarar eru í mörgum tilfellum í ráðgjafahlutverki gagnvart kennurum, stjórnendum og foreldrum þegar kemur að börnum með sérþarfir, hvort sem þær tengjast námi, hegðun, félagsfærni, tilfinningum eða menningarlegum bakgrunni.

Þrátt fyrir þetta mikilvæga hlutverk er starfsheitið „sérkennari“ ekki lögverndað. Í dag geta allir sem sinna stuðningi við nemendur kallað sig sérkennara, jafnvel þótt þeir hafi ekki sérmenntun á sviðinu. Þegar auglýst er eftir sérkennurum er oft ekki gerð krafa um meistaragráðu í sérkennslu eða sambærilegu sérfræðinámi. Þetta veikir faglega stöðu starfsins og getur haft áhrif á gæði þjónustunnar sem nemendur fá.

Þeir sérkennarar sem starfa í dag hafa hins vegar lagt á sig umfangsmikið nám. Að jafnaði hafa þeir lokið tveggja ára meistaranámi til viðbótar við kennsluréttindi, þar sem áhersla er lögð á fræðilega þekkingu, greiningu, íhlutun og samstarf. Þeir eru þjálfaðir í að styðja bæði nemendur og almenna bekkjarkennara með faglegum, markvissum og siðferðilega ábyrgum hætti.

Sérkennari er því ekki aðeins kennari sem vinnur með fámennan hóp eða einstaklinga. Sérkennari er sérmenntaður sérfræðingur og ráðgjafi sem gegnir lykilhlutverki í inngildandi skólastarfi. Ef markmið menntakerfisins er raunverulegt jafnræði og farsæld allra nemenda, þá þarf að viðurkenna sérkennslu sem sérfræðistarf, tryggja skýrar hæfniskröfur og efla stöðu sérkennara innan skólakerfisins.

Mikilvægi sérkennara í grunnskólum liggur því fyrst og fremst í sérfræðiþekkingu þeirra sem byggir á sérhæfðri menntun og djúpum skilningi á námi og þroska barna. Sú þekking gerir þeim kleift að beita gagnreyndum kennsluaðferðum af fagmennsku og tryggja að nemendur sem standa höllum fæti fái markvissan og árangursríkan stuðning og kennslu.

Rannsóknir og reynsla sýna að snemmtæk og fagleg íhlutun sérkennara getur komið í veg fyrir langvarandi námsvanda, dregið úr brottfalli, styrkt sjálfsmynd nemenda og stuðlað að betri líðan þeirra í skóla.

Án nægilegs fjölda sérkennara er hætta á að sérkennsla verði ómarkviss, snemmtæk íhlutun bregðist og nemendur missi af nauðsynlegum tækifærum til náms og þátttöku.

Sérkennarar eru því lykill að gæðum, jafnræði og faglegri ábyrgð í íslensku skólakerfi.

Höfundar eru sérkennarar og jafnframt formaður og varaformaður Félags sérkennara á Íslandi.




Skoðun

Sjá meira


×