Skoðun

Fram­halds­skólinn: horfum til fram­tíðar og finnum lausnir

Simon Cramer Larsen skrifar

Við þekkjum þetta öll. Það er gott að hittast, ræða saman og deila sögum. Oft heyrum við sömu sögurnar aftur og aftur. Í raun má segja hið sama um umræðuna um framhaldsskólann. Vandamálin „í sögunum“ um framhaldsskólann eru síendurtekin. Við þekkjum þau flest og listinn er orðinn kunnuglegur: vanfjármögnun, stytting framhaldsskólans, hár húsaleigukostnaður og ýmislegt fleira. Á þetta hefur margsinnis verið bent áður.

Fortíðinni breytum við ekki en við getum brugðist við hér og nú og borið ábyrgð á framtíðinni hvað þetta varðar.

Sækjum fram

Löngu er kominn tími til að tala minna um vandamálin og meira um lausnir þeirra. Ekki aðeins benda á það sem er að, heldur finna leiðir og vinna áfram að þeim saman. Lausnir verða ekki til í skýrslum gerðum af fólki sem aldrei hefur unnið í framhaldsskólum. Þær verða til í samtali við fólkið sem vinnur á gólfinu á hverjum degi, þ.e.a.s. kennara, náms- og starfsráðgjafa og annað starfsfólk.

Í stað þess að vera stöðugt í varnarbaráttu þurfum við að sækja fram með skýrri sýn og raunhæfum skrefum. Sóknarfæri hafa lengi verið til staðar en aldrei verið nýtt. Launamálin eru grundvallaratriði í því samhengi. Kennarar eiga ekki að þurfa að vera í tveimur störfum til að ná endum saman. Launin verða að endurspegla ábyrgðina, menntunina og það samfélagslega hlutverk sem starfinu fylgir. En hagur félagsmanna snýst ekki aðeins um laun heldur einnig um álag, starfsaðstæður og virðingu fyrir fagmennsku. Hérna höfum við tækifæri til að gera miklu betur.

Eitt skýrasta dæmið er 7. grein kjarasamninga framhaldsskólakennara sem hefur verið hluti af samningunum frá árinu 2016 en aldrei fengist fjármagn fyrir. Greinin á að skapa svigrúm til nýrra verkefna, betri starfsaðstæðna og taka tillit til stærðar og samsetningar nemendahópsins svo eitthvað sé nefnt.

Þetta er úrræði sem þegar hefur verið samið um og viðurkennt en aldrei hefur verið staðið við. Hvers vegna, spyr maður sig? Hérna liggur skýrt tækifæri til sóknar, ef vilji er til að fylgja samningum eftir af fullri alvöru.

Önnur dæmi um raunæf skref sem hægt væri að taka:

  • koma á réttlátu vinnumati fyrir iðn- og verkgreinakennara sem endurspeglar raunverulegt álag og ábyrgð í starfi
  • fækka nemendum í hópum, laga hópastærðir og aðlaga vinnumati svo það bitni ekki á launum kennara
  • innleiða mannúðleg úrræði, eins og t.d. aðstandendaleyfi, sem styður fólk á ólíkum skeiðum lífsins og getur dregið úr álagi og jafnvel kulnun
  • stytta vinnuvikuna sem gæti stuðlað að bættri líðan kennara og starfsfólks auk þess að færa skólaumhverfið nær þeim breytingum sem hafa átt sér stað á vinnumarkaðinum á síðustu árum
  • greina styttingu framhaldsskólans, þ.e.a.s. áhrif hennar á vinnutíma, nám o.fl.

Gæðamenntun felst ekki í áramótaheitum

Umræðan um vellíðan, kulnun og starfsaðstæður hefur setið á hakanum of lengi.

Ef við viljum gæðamenntun þurfum við að opna fyrir umræðuna um starfsumhverfi kennara og náms- og starfsráðgjafa. Um líðan þeirra í starfi og hvernig við tryggjum umhverfi innan skólanna þar sem fólk hefur svigrúm til að sinna starfi sínu af fagmennsku og nemendur fá raunverulegan stuðning.

Þetta eru ekki róttækar kröfur. Þetta eru skynsamleg skref sem byggja á gildandi samningum, reynslu starfsfólks og þeirri staðreynd að ef við viljum sterkt framhaldsskólakerfi verðum við að fjárfesta í fólkinu sem ber það uppi. Þannig leggjum við grunn að gæðamenntun. Ekki með áramótaheitum sem gleymast eftir því sem á árið líður.

Tökum samtalið

Ef við ætlum að horfa til framtíðar af alvöru þurfum við að tala saman. Ekki með því að endurtaka umræðu um vandamálin, heldur með skýra sýn, raunhæfar lausnir og sameiginlega ábyrgð að leiðarljósi. Það vita flestir að Félag framhaldsskólakennara er tilbúið í samtal og samvinnu en það er löngu tímabært að raungera slíkar samræður og komast að haldbærum niðurstöðum.

Til þess að taka skynsamlegar ákvarðanir þarf líka að hlusta. Það er mikilvægt að heimsækja skóla landsins og ræða við kennara, náms- og starfsráðgjafa og nemendur. Ekki í stuttum eða yfirborðslegum kynningarheimsóknum, heldur með raunverulegan vilja í farteskinu til að skilja aðstæður og bregðast við þegar þörf krefur.

Við eigum ekki að bíða eftir að aðrir móti umræðuna. Félag framhaldsskólakennara ásamt grasrótinni á að leiða hana og félagið á ekki aðeins að taka þátt, heldur móta dagskrána, koma fram með lausnir og krefjast þess að mark sé á þeim tekið. Munum að framtíðin er mótuð með okkur, ekki án okkar, því enginn þekkir þarfir framhaldsskólans betur en fólkið sem starfar þar á gólfinu á hverjum degi. Þannig skiljum við fortíðina eftir til að læra af og færum framhaldsskólann inn í framtíðina.

Höfundur er framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla, formaður skólamálanefndar Félags framhaldsskólakennara og frambjóðandi til formanns Félags framhaldsskólakennara.




Skoðun

Skoðun

32 dagar

Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Sjá meira


×