Sport

Sænskur Ólympíufari vill nú keppa fyrir Finn­land

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Lindahl sést hér vafinn í sænska fánann eftir keppni en nú vill hún keppa fyrir allt aðra þjóð.
Nora Lindahl sést hér vafinn í sænska fánann eftir keppni en nú vill hún keppa fyrir allt aðra þjóð. @noralindahl

Hin 21 árs gamla Nora Lindahl hefur keppt fyrir hönd Svíþjóðar á heimsmeistaramóti og Ólympíuleikum. Nú vill hún frekar keppa fyrir Finnland.

„Á yngri árum hljóp ég fyrir Svíþjóð, nú vil ég ná árangri fyrir Finnland,“ sagði Nora Lindahl í fréttatilkynningu frá finnska frjálsíþróttasambandinu.

Finnska blaðið Yle greinir frá því að finnska frjálsíþróttasambandið hafi haft samband við það sænska og nú hefur verið send inn umsókn til Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins.

„Að sjálfsögðu urðum við mjög glöð þegar við fréttum af ósk Noru um að skipta um landslið. Við ræddum málið þegar í lok síðasta árs og nú er boltinn hjá WA,“ sagði Tuomo Salonen, íþróttastjóri finnska sambandsins.

Lindahl, sem hleypur 100 metra og 200 metra, fæddist í Lúxemborg en hún er dóttir sænskrar móður og finnsks föður. Hún hefur búið í Espoo í Finnlandi síðan í haust.

Þegar hún var sextán ára byrjaði hún að hlaupa fyrir Svíþjóð. Þar hefur hún meðal annars unnið gull á Evrópumeistaramóti unglinga í 200 metra hlaupi. Hún hefur einnig keppt fyrir Svíþjóð á EM, Ólympíuleikum og síðast á HM í frjálsum íþróttum í Tókýó í september.

Búist er við ákvörðun um landsliðsskiptin í byrjun árs, að því er Yle greinir frá, en það á eftir að koma í ljós hvenær hún fær þá að skipta um landslið. Venjan er að biðtíminn sé þrjú ár en finnska sambandið hefur sótt um að fá hann styttan.

Þar sem hún keppti á HM í Tókýó gæti biðtíminn staðið allt til haustsins 2028.

„Það er auðvitað svolítið leiðinlegt að ég fái ekki strax að keppa fyrir Finnland. Ég er andlega undirbúin fyrir það að ég muni ekki taka þátt í EM næsta sumar,“ segir Lindahl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×