Skoðun

Ný kyn­slóð

Björg Magnúsdóttir skrifar

Alla ævi hef ég gert grín að frambjóðendum. Þegar venjulegt fólk gengur til liðs við þennan þjóðflokk verður það umsvifalaust 30% hressara, fer út að hlaupa strategískt á móti umferð á Sæbraut á álagstímum, setur upp pottaplan í mismunandi sundlaugum og mætir í Bónus á annatíma í stað þess að Wolta eins og venjulegt fólk.

Enddurræsing í Reykjavík

Nú er ég orðin hluti af þessum hópi og býð mig fram sem oddviti Viðreisnar í Reykjavík og slagorðin óma úr hverju horni hins pólitíska litrófs. Reykjavík sem virkar! Betri grunnþjónustu! Breytingar - nú í alvörunni! Vissulega kómískt hvað frasarnir eru keimlíkir en þeir segja okkur þó að margir átta sig á því að eftir sveitarstjórnarkosningar í vor verður dregin afgerandi lína í sandinn. Það þarf að endurræsa kerfin í Reykjavíkurborg þar sem ákall um nýjar aðferðir og nýja nálgun ómar um holt og hæðir, fell og múla. Þetta ákall skýrist af því að borgarbúar finna á eigin skinni að Reykjavík sinnir ekki hlutverki sínu.

Reið mamma

Þó ég sé nú frambjóðandi er ég bara venjuleg kona og í grunninn reið mamma sem finnst þjónustan ekki standast væntingar. Leikskólar, umferðin, æfingagjöldin, fáliðunin, unga fólkið sem kemst ekki að heiman, gamla fólkið sem kemst ekki að heiman inn á hjúkrunarheimili, flækjustigið, óráðsían, tímaplönin sem standast ekki, myglan og allt hitt.

Hvernig á að breyta?

Breytingar eru eins og áramótaheit. Hann ætlar að hreyfa sig meira og hún ætlar að fækka nikótínpúðum. Góður vilji er hinsvegar bara byrjunin og í raun ekkert nema einföld hugsun um að þú værir til í að gera eitthvað öðruvísi. Höfum samt í huga að flest erum við líklegust til að taka sömu ákvörðun og við tókum í gær. Það þarf átak til að breyta. Það þarf fókus, kjark og skýr markmið til að breyta. Það þarf að binda breytingar í framkvæmdir. Og svo má hætta með verkefni sem þjóna ekki tilgangi sínum.

Síðustu kjörtímabil hefur svipað prógram verið keyrt í borginni. Nú er tími fyrir nýja kynslóð og nýjar aðferðir þar sem þjónusta kringum daglegt líf Reykvíkinga er sett í fyrsta sæti. Næsti kafli borgarinnar þarf viðreisn. Sem oddviti Viðreisnar í Reykjavík mun ég sjá til þess að það sé gert.

Höfundur tekur þátt í leiðtogaprófkjöri Viðreisnar í Reykjavík




Skoðun

Sjá meira


×