Skoðun

Er ekki kominn tími til að jarða megrunar- og út­lits­menningu?

Nanna Kaaber skrifar

Árið er 2026.

Þetta er árið sem ég óska þess heitt og innilega að við jörðum útlitsdýrkun, megrunartal, fitufordóma og þá hugmynd að nota hreyfingu sem refsingu eða útlitsmótunartól.

Staðan er sú að í dag lifum við í heimi samfélagsmiðla þar sem við erum stöðugt mötuð af alls kyns upplýsingum — mörgum jákvæðum, en allt of mörgum neikvæðum og beinlínis heilsuskaðandi. Börnin okkar eru einnig á góðri leið með að alast upp við síendurtekin neikvæð skilaboð, og við sem erum fullorðin berum ábyrgð.

Við berum ábyrgð á því að börnin okkar þurfi ekki að fara í gegnum sama megrunar- og útlitsáróður og við höfum þurft að þola. Ég hélt í alvörunni að við værum á góðri leið með að útrýma þessu, en í staðinn virðist vera að verða veruleg afturför í þessum málefnum. Þess vegna finnst mér þörfin fyrir brýningu nú meiri en nokkru sinni fyrr.

Í ljósi þess vitum við meðal annars að:

  • Útlit annarra kemur okkur ekki við.
  • Við erum eins misjöfn og við erum mörg og eigum ekki öll að líta eins út. Sama hversu líkur lífsstíllinn okkar er verðum við aldrei öll eins — því enginn er eins, sem betur fer.
  • Heilsa hefur ekki eitt ákveðið útlit. Hún ræðst af fjölmörgum þáttum, bæði líkamlegum, andlegum og félagslegum.
  • Hefðbundin megrun skilar yfirleitt ekki fyrirsjáanlegum eða varanlegum árangri og getur haft neikvæð áhrif á samband fólks við mat, líkama og sjálfsmynd. Heilbrigt samband við mat og hreyfingu er hins vegar heilsueflandi.
  • Að nota hreyfingu sem refsingu eða sem leið til að „bæta upp fyrir“ mat stuðlar sjaldnast að jákvæðu eða varanlegu sambandi við hreyfingu.
  • Að nota hreyfingu einungis sem tól til að breyta líkamanum sínum er heldur ekki líklegt til að gera hana að einhverju sem við stundum ævilangt.
  • Fitufordómar eru ekki væntumþykja né hvatning til betri heilsu. Við vitum í dag að líkamsþyngd og sjúkdómurinn offita eru flókin fyrirbæri sem mótast af mun fleiri þáttum en einfaldlega því að borða minna og hreyfa sig meira.
  • Útlit annarra kemur okkur ekki við.

Það sem við þurfum á að halda — og síðast en ekki síst það sem börnin okkar þurfa að alast upp við — er sú sýn að hreyfing sé heilsueflandi. Við stundum hreyfingu til að verða sterk, líða vel, hafa meiri orku, byggja upp traust á eigin líkama og geta gert þá hluti sem okkur langar til að gera, ævilangt.

Við borðum næringarríkan og góðan mat til að efla heilsuna, styðja við líkamann, hafa orku, sofa vel og geta lifað lífinu með úrvals orku á tankinum. Við gerum okkur grein fyrir því að fólk er mismunandi og á að vera ólíkt. Útlit fólks, breytingar á líkamsþyngd eða líkamsformi koma okkur ekki við og eru ekki okkar að gera athugasemdir við.

Getum við gert þetta saman?

Höfundur er íþróttafræðingur og þjálfari.




Skoðun

Sjá meira


×