Enski boltinn

„Ég kom hingað til að vera stjóri, ekki til að vera þjálfari“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, bauð upp á mjög sérstakan blaðamannafund eftir leikinn í dag.
Ruben Amorim, stjóri Manchester United, bauð upp á mjög sérstakan blaðamannafund eftir leikinn í dag. Getty/Ash Donelon

Ruben Amorim aðalþjálfari Manchester United hefur skorað á yfirmenn sína hjá Manchester United að leyfa sér að sinna starfi sínu án afskipta. Hann bauð upp á mjög sérstakan blaðamannafund eftir að liðið tapaði stigum á Elland Road í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Eftir að hafa gefið í skyn á föstudag að vandamál væru á bak við tjöldin beið Amorim eftir síðustu spurningunni á blaðamannafundi sínum eftir 1-1 jafnteflið gegn Leeds United til að koma öðru mikilvægu atriði á framfæri.

Í leiðinni gaf hann til kynna að hann hefði orðið fyrir óæskilegum innri afskiptum frá háttsettum aðilum hjá United og að félagið væri orðið of viðkvæmt fyrir gagnrýni að utan.

Segir aðra stjóra ekki fá sömu meðferð

Hann nefndi einnig nöfn þriggja þekktra fyrrverandi stjóra í ensku úrvalsdeildinni og gaf í skyn að þeir myndu ekki sæta sömu meðferð.

Amorim sagði ítrekað að eftir átján mánuði, þegar samningur hans rennur út, muni hann yfirgefa félagið.

„Ég vil bara segja að ég kom hingað til að vera knattspyrnustjóri, ekki til að vera þjálfari,“ sagði Ruben Amorim.

Ég mun sinna mínu í átján mánuði

„Í öllum deildum – njósnadeildinni, yfirmaður knattspyrnumála – [þeir] þurfa að sinna sínu starfi. Ég mun sinna mínu í átján mánuði og svo höldum við áfram,“ sagði Amorim.

„Ég vil bara segja að ég ætla að vera knattspyrnustjóri þessa liðs, ekki bara þjálfari. Ég var mjög skýr með það. Því lýkur eftir 18 mánuði og þá halda allir áfram. Það var samkomulagið. Það er mitt starf, ekki að vera þjálfari,“ sagði Amorim.

Amorim hefur sagt að ágreiningur hafi verið við félagið um leikmenn sem á að kaupa, á meðan vísbendingar um vaxandi spennu við yfirmann knattspyrnumála, Jason Wilcox, hafa orðið sterkari.

„Þið fenguð valdar upplýsingar um allt“

Þegar hann var spurður hvort hann teldi sig enn hafa traust stjórnar United sagði Amorim: „Til að byrja með tók ég eftir því að þið fenguð valdar upplýsingar um allt,“ sagði Amorim.

„Ég kom hingað til að vera knattspyrnustjóri Manchester United, ekki til að vera þjálfari Manchester United. Það er alveg á hreinu,“ sagði Amorim.

„Ég veit að ég heiti ekki Tuchel“

„Ég veit að ég heiti ekki [Thomas] Tuchel, ég heiti ekki [Antonio] Conte, ég heiti ekki [Jose] Mourinho, en ég er knattspyrnustjóri Manchester United. Og þannig verður það í 18 mánuði eða þar til stjórnin ákveður að breyta,“ sagði Amorim.

„Ég ætla ekki að hætta. Ég mun sinna starfi mínu þar til annar maður kemur hingað til að leysa mig af hólmi,“ sagði Amorim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×