Enski boltinn

Sesko var rangstæður og Cunha skilur ekkert

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Matheus Cunha var mjög svekktur með markið sem var dæmt af.
Matheus Cunha var mjög svekktur með markið sem var dæmt af. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Matheus Cunha gat ekki glaðst mikið yfir stiginu sem Manchester United sótti gegn Leeds í 20. umferð ensku úrvaldsdeildarinnar. Hann skilur líka ekkert í því að mark hafi verið dæmt af honum þegar Benjamin Sesko var sá sem stóð í rangstöðunni.

Cunha skoraði mark Manchester skömmu eftir að liðið lenti undir. Hann var síðan nálægt því að setja sigurmarkið en skaut í stöngina.

„Við viljum auðvitað vinna alla leiki en eftir jafnteflið gegn Wolves í síðustu umferð var sérstaklega mikið hungur í okkur. Við vildum snúa þessari neikvæðu tilfinningu við en tilfinningin eftir þennan leik er sú sama og síðast“ sagði brasilíski framherjinn við BBC eftir leik.

Snemma leiks skoraði Cunha gott mark sem var dæmt af vegna rangstöðu. Cunha virtist samt alls ekki vera rangstæður.

„Ég skil ekkert. Ég talaði við dómarann og hann sagði að Ben[jamin Sesko] hafi verið rangstæður. Ég man ekki eftir því að hann hafi komið nálægt boltanum. Það var Casemiro sem sendi á mig og svo skaut ég bara, þannig að ég veit ekki hvað Sesko hefur með þetta að gera. Frekar pirrandi ef þú spyrð mig“ sagði Cunha.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×