Enski boltinn

Al­fons og Willum fögnuðu sigri gegn toppliðinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Willum Þór og Alfons Sampsted sáu um að sigla sigrinum í höfn. 
Willum Þór og Alfons Sampsted sáu um að sigla sigrinum í höfn. 

Birmingham vann 3-2 sigur gegn toppliði Coventry, sem endaði með aðeins tíu menn á vellinum, í 26. umferð ensku Championship deildarinnar. Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson komu báðir við sögu og kunna að klæða sig í réttar treyjur. 

Leikurinn bauð upp á heilmikla dramatík. Birmingham tók forystuna tvisvar en í bæði skipti jöfnuðu gestirnir. Birmingham komst svo yfir í þriðja sinn í seinni hálfleik og tókst að sigla sigrinum í höfn.

Marvin Ducksch skoraði tvennu fyrir Birmingham og Patrick Roberts lagði tvö af þremur mörkum liðsins upp. Lewis Koumas skoraði líka.

Staðan var því orðin 3-2 og spennan magnþrungin þegar Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson komu inn á völlinn á 72. mínútu.

Þeir félagar voru klæddir í réttar treyjur, annað en liðsfélagi þeirra Kai Andrews sem kom inn á í sömu skiptingu en var óvart klæddur í treyju Jake Bidwell. Spaugileg stund sem stoppaði leikinn í smástund.

Topplið Coventry reyndi svo að setja jöfnunarmarkið en tókst það ekki og þegar ljóst varð að sigur myndi ekki skila sér missti miðvörðurinn Bobby Thomas hausinn og fékk rautt spjald.

Ipswich, Middlesborough, Watford, Hull og Preston geta því minnkað forystuna miklu sem toppliðið er með.

Birmingham er hins vegar langt frá þeirri baráttu, í 14. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×