Innlent

„Margir sem því miður eru ekki jafn heppnir og ég“

Eiður Þór Árnason skrifar
Svavar Halldórsson eftir hjartaþræðinguna á Landspítalanum.
Svavar Halldórsson eftir hjartaþræðinguna á Landspítalanum. Aðsend

Svavar Halldórsson, sölu- og markaðsstjóri hjá Algalífi og fyrrverandi fréttamaður, er þakklátur fyrir að vera á lífi eftir alvarlega kransæðastíflu. Lífið hafi tekið stakkaskiptum og hann þakki nú fyrir hvern dag og hvert augnablik.

Síðasta vetur fór hann að finna fyrir ofurþreytu og í lok janúar á þessu ári hafði brjóstverkur bæst við. Skyndilega ágerðist sjúkdómurinn mjög hratt. 

„Það byrjar að stíflast, svo stíflast meira og meira og þetta var orðið þannig að ég stóð varla í lappirnar. Ég stóð á öndinni bara af því að stíga fáein skref síðustu vikuna eða svo,“ segir hann í samtali við fréttastofu.

Í byrjun febrúar var hann sendur í hjartaþræðingu og þá kom í ljós að hann var með 99 prósent stíflaða kransæð við hjartað. Það mátti því ekki tæpara standa.

Svavar ásamt Þóru Arnórsdóttur, eiginkonu sinni og forstöðumanni samskipta og upplýsingamiðlunar hjá Landsvirkjun, á toppi Snæfells.aðsend

„Aldrei hef ég upplifað eilífðina jafn nálæga,“ skrifar Svavar í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann gerir upp viðburðarríkt ár. „Í nokkra sólarhringa óttaðist ég að enda hinu megin.“

„Svo fór ég í þræðinguna sem er í sjálfu sér einföld aðgerð en þetta var svolítið óþægilegt þegar maður veit hvað er að gerast og maður er að bíða eftir því að komast að. Þá voru þetta óþægilegir sólarhringar af því þetta getur farið hvernig sem er,“ segir Svavar í samtali við fréttastofu. Eftir aðgerðina hafi hann verið mikið hressari og síðasta árið reynt að vera duglegur að hlaupa og sigra fjöll.

Flakkað um heiminn

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hjartasjúkdómur hrjáir Svavar en hann fékk hjartaáfall árið 2007.

Hann hefur náð góðum bata eftir hjartaþræðinguna í febrúar og segir það hafa skipt sköpum að draga úr álagi, stunda mikla hreyfingu, hafa heilbrigt mataræði og fjölga stundum með fjölskyldu og vinum. Í dag líði honum stórvel.

Svavar eftir að hafa klárað tíu kílómetra hlaup í Egyptalandi.aðsend

„Ég er 25 kg léttari en um síðustu jól, hef synt einhver ósköp af ferðum, farið margoft á Helgafellið og í allskyns aðra labbitúra, flakkað um heiminn, afrekað að ganga á Snæfell (hæsta fjall Íslands utan jökla) og kláraði 10 km hlaup við píramídana miklu í Egyptalandi núna í desember.“

Lífið sé dásamlegt

Svavar er þakklátur íslenska heilbrigðiskerfinu, fjölskyldunni og vinum og beinir því til fólks að gæta sín.

„Það eru náttúrulega mjög margir, sérstaklega karlar á mínum aldri, sem eru í áhættuhópi. Maður verður svolítið að passa sig og hlusta á líkamann og huga að heilsunni. Svo eru auðvitað margir sem því miður eru ekki jafn heppnir og ég.“

Hann segist fara brattur inn í næsta ár og vera fullviss um að hann verði að minnsta kosti hundrað ára gamall.

„Það er bara gott að vera til og lífið er dásamlegt,“ segir Svavar að lokum þegar hann lítur yfir farinn veg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×