Innlent

Sjálf­virkir lyfjaskammtarar borgi sig tvö­falt til baka

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lyfjarúllum er hlaðið í skammtarana og þeir deila út lyfjum á réttum tíma.
Lyfjarúllum er hlaðið í skammtarana og þeir deila út lyfjum á réttum tíma. Vísir/Vilhelm

Sjálfvirkir lyfjaskammtarar, sem nýttir eru í heimaþjónustu um allt land, hafa reynst gríðarlega vel. Sviðsstjóri hjá heimaþjónustu borgarinnar segir skammtarana spara mikinn tíma hjá starfsmönnum og auka sjálfstæði notendanna svo um munar.

Sjálfvirku skammtararnir hafa verið í notkun hjá borginni síðan 2021 og hafa þeir nú útbýtt á þriðja hundrað þúsund lyfjaskammta á þeim tíma. Tækin eru fyrst og fremst notuð fyrir eldra fólk og eru nú 130 daglegir notendur.

„Við setjum þessa lyfjarúllu sem fólk fær í apóteki í skammtarana og þeir lesa hvort þetta sé ekki réttur einstaklingur og klukkan hvað lyfjagjöfin á að vera og skammta lyfin eftir því. Þannig að fólk fær rétt lyf á nákvæmlega réttum tíma,“ segir Auður Guðmundsdóttir sviðsstjóri heimaþjónustu Reykjavíkurborgar.

Minna fólk á að taka lyfin

Innbyggt í tækin er öryggiskerfi svo þau láti bæði notendurna og heimaþjónustuna vita ef lyfin eru ekki tekin á réttum tíma. Auður segir tækin spara mjög mikinn tíma.

„Í staðinn fyrir að senda starfsfólk með lyfin heim til fólks þá getum við nýtt tímann í önnur verkefni. Þetta er mikill tímasparnaður.“

Ábatinn enn meiri á landsbyggðinni

Samkvæmt greiningu er ábatinn nánast tvöfaldur.

„Fyrir hverja krónu sem þú fjárfestir í hvern lyfjaskammtara færðu 1,8 krónu til baka. Það er ábatinn en ábatinn felst þá í endurdreifingu á tíma starfsfólks. Það er ábatinn fyrir okkur og þegar við erum að tala um mönnunarskort og slíkt sem er í heilbrigðiskerfinu þá getur það verið gríðarlega mikilvægt að geta endurdreift tímanum svona, sett í önnur verkefni og forgangsraðað,“ segir Auður.

Ávinningurinn sé einnig mikill fyrir notendurna en stefnt er að því að fjölga tækjunum á næsta ári.

„Þetta ýtir undir sjálfstæði eldra fólks og gerir því kleift að búa lengur heima,“ segir hún.

„Ábatinn fyrir landsbyggðina er enn meiri en fyrir okkur hér í Reykjavíkurborg. Ég held að þetta sé þjónusta sem er komin til að vera. Svo nú þurfum við að bretta upp ermar og skala upp.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×