Innlent

Þurftu að lenda í Liverpool á leið til Manchester

Árni Sæberg skrifar
Flugvél Icelandair var á leið til Manchester frá Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Icelandair var á leið til Manchester frá Keflavíkurflugvelli. Vísir/Vilhelm

Lenda þurfti flugvél Icelandair á leið til Manchester í Englandi í Liverpool í dag vegna lokunar á annarri tveggja flugbrauta flugvallarins í Manchester. Eftir að fyllt hafði verið á eldsneytistanka flugvélarinnar í Liverpool var flogið til Manchester, þar sem vélinni var lent tæpum tveimur klukkustundum á eftir áætlun.

Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttur, forstöðumaður samskipta hjá Icelandair. Fjallað hefur verið um miklar tafir á Manchester-flugvelli í morgun í enskum fjölmiðlum. 

Til að mynda segir í frétt Independent að skemmdir hafi uppgötvast á akbraut að annarri flugbraut vallarins, sem gera hafi þurft við áður en unnt væri að nota flugbrautina.

Ásdís Ýr segir að áætlaður lendingartími á Manchester-flugvelli hafi verið klukkan 12 en vélinni hafi verið lent þar klukkan 13:43. Seinkunin muni hafa áhrif á bakaleiðina frá Manchester en ekki frekari áhrif á flugáætlun Icelandair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×