Innlent

Lands­menn sáttir: „Þetta eru bara glæpahundar“

Tómas Arnar Þorláksson og Rafn Ágúst Ragnarsson skrifa
Þeir borgarbúar sem fréttastofa ræddi við tóku vel í ákvörðun Rúv.
Þeir borgarbúar sem fréttastofa ræddi við tóku vel í ákvörðun Rúv. Vísir/Samsett

Ísland verður ekki með í Eurovision í Austurríki á næsta ári. Framkvæmdastjórn Ríkissjónvarpsins tók ákvörðun um það í gær og tilkynnti stjórn félagsins í dag. Það var ekki einhugur um ákvörðunina í stjórninni en landsmenn eru sáttir ef marka má slembiúrtak fréttastofunnar.

Fréttamaður Sýnar þveraði Listabrautina og tók púlsinn á borgarbúum. Meðal þeirra Kringlugesta sem rætt var við voru viðbrögðin einróma.

Tryggvi Kolviður Sigtryggsson sagðist telja að þó Eurovision fylgi alltaf mikið fjör hafi Ríkisútvarpið tekið rétta ákvörðun. Gabríel Elí Jóhannsson félagi hans tók undir með honum.

Sunnevu Einarsdóttur finnst galið að Ísrael fái að taka þátt.

„Ég er persónulega ekki mjög sátt með það. En mér finnst fínt að við séum ekki að taka þátt og sýnum Palestínu stuðning,“ sagði hún.

Guðlaug Erla Gunnarsdóttir var sömuleiðis ánægð.

„Mér finnst að við eigum að taka afstöðu í slíkum málum,“ sagði hún.

Sumir tóku dýpra í árinni en aðrir.

„Þetta eru bara glæpahundar þarna upp frá. Það á ekki að hleypa þessu liði inn. Það á enginn að vera með þeim í liði,“ hafði Bragi Guðmundsson að segja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×