Skoðun

Ís­lenska til sýnis – Icelandic for display

Matthías Aron Ólafsson skrifar

Undirritaður býr á Írlandi. Hér, innan írska lýðveldisins, eru formlega töluð tvö tungumál: írska, einnig kölluð gelíska, og enska.

Ég hef þó aldrei verið ávarpaður á írsku. Ég hef einungis tvisvar sinnum heyrt hana talaða á förnum vegi. Samt sé ég hana á hverjum degi. Allar opinberar upplýsingar þurfa nefnilega að vera á bæði írsku og ensku. Í upphafi átjándu aldar talaði meirihluti fólks hér írsku. Í dag tala þó aðeins rúmlega 2% tungumálið daglega, þó svo að töluvert fleiri skilji það og geti tæknilega séð talað það upp að einhverju marki. Tungumál þetta glataðist ekki meðal meirihluta þjóðarinnar. Því var eytt á einbeittan hátt á átjándu og nítjándu öld undir hnefa breska heimsveldisins.

Breskum heimsvaldasinnum tókst þó ekki ætlunarverk sitt. Írska og gelísk menning sótti aftur í sig veðrið undir lok nítjándu aldar. Eftir stofnun írska fríríkisins árið 1922 var írska gerð að „fyrsta“ tungumáli, á undan ensku, og var stjórnarskráin frá árinu 1937 jafnframt samin á írsku. Á sama tíma var tungumálið gert að skyldufagi í grunnskólum. Allt skyldi vera á írsku, og síðan ensku. Hægt og rólega fram til tuttugustu og fyrstu aldar var írskan sett í fyrsta sæti á opinberum vettvangi. Í gegnum árin hefur tungumálið þó verið kennt á máta sem valdið hefur því að það hefur enn ekki náð sínum fyrri hæðum. Ástæðan er mögulega sú að eftir að ensku hafði verið þröngvað upp á stóran hluta þjóðarinnar, sneri hún vörn í sókn á tuttugustu öld og gerði málið að sínu með einstökum rithöfundum, leikskáldum og tónlistarfólki. Hér er um að ræða Híbernó-enskuna, sem er ráðandi hér í dag og býr jafnframt yfir miklum svæðisbundnum blæbrigðum.

Á Írlandi var lögum og ofbeldi beitt til að bæla niður írskuna. Á Íslandi er sagan önnur. Við vorum svo heppin að Aldinborgarkonungar Dana reyndu aldrei að eyða íslenskunni, þó svo að danska hafi lengi vel verið ráðandi innan stjórnkerfis okkar. Eftir meira en 80 ár sem sjálfstæð þjóð eigum við þó á hættu að glata tungumálinu okkar með næstu kynslóðum, fyrst og fremst vegna kæruleysis og þæginda nútímans.

Nær ávallt þegar ég les á skilti hér á Írlandi, sem fyrst eru rituð á írsku og síðan á ensku, hugsa ég um íslenskuna. Ég velti fyrir mér hvort skilti á Íslandi verði einnig með þessum hætti í framtíðinni, hvort allt verði á íslensku og síðan á ensku á meðan aðeins rúmlega 2% þjóðarinnar tali „fyrsta tungumálið“ daglega: það væru færri en 10,000 manneskjur miðað við fjölda Íslendinga í dag.

Kæru landsmenn, ég vil bara segja þetta: missum ekki málið. Missum það ekki úr greipum okkar og inn í glerskáp, upp á punt - til sýnis. Örvum mál okkar, hnoðum það áfram. Mál er menning, og menning er mál.

Höfundur er doktorsnemi í sagnfræði við Þrenningargarð í Dyflinni, Írlandi.




Skoðun

Sjá meira


×