Lífið

Inga Elín hannar fyrir Saga Class

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Inga Elín hefur hannað nýtt ferðasett fyrir farþega Icelandair.
Inga Elín hefur hannað nýtt ferðasett fyrir farþega Icelandair.

Icelandair kynnti nýverið til leiks sérstakt ferðasett fyrir farþega Saga Class sem unnið er í samstarfi við listakonuna Ingu Elínu. Innblásturinn að hönnun settsins kemur frá íslenskri náttúru, þar sem frjáls form og náttúruleg mótíf ráða för.

Ferðasettið samanstendur af fjölnota bómullarpokum og farþegar fá að velja þær vörur sem þeir vilja hafa í pokanum. Markmiðið er að stuðla að minni sóun og betri nýtingu, en innihald pokans nýtist bæði í fluginu og eftir ferðalagið.

Settin eru í boði fyrir alla Saga Premium Flex og Saga Premium farþega, í flugum milli Íslands og Norður-Ameríku.

„Þetta ferðasett er gjöf til farþega okkar og gerir flugið ánægjulegra, auk þess sem það verður minning um ferðalagið,“ segir um verkefnið á vefsíðu Icelandair.

Hlaut verðlaun Danadrottningar

Inga Elín hóf feril sinn sem listakona aðeins tólf ára gömul og hefur frá unga aldri tileinkað lífi sínu listinni, með sérstakri ástríðu fyrir keramík. Hún lauk námi við Myndlistaskóla Reykjavíkur og hélt síðar til Danmerkur þar sem hún stundaði nám við Denmark Design (áður Skolen for Brugskunst). 

Þá hlaut hún verðlaun Danadrottningar fyrir lokaverkefni sitt, sem samanstóð af keramík og glerglösum.

Náttúran er einkennandi í verkum hennar og fanga þau náttúruleg íslensk mótíf eins og vindinn, vatnið og flæðið. Þessi mótíf njóta sín best í þekktustu hönnun Ingu Elínar, Veltibollanum. Í gegnum árin hefur hún þróað og búið til yfir 200 mynstur sem prýða bollana.

Fjölbreyttir valmöguleikar

Áhafnameðlimir setja vörur í pokana eftir vali hvers og eins farþega. Þetta gerir ferðina persónulegri og stuðlar jafnframt að minni sóun.

Eftirfarandi valmöguleikar eru í boði:

  • Svefngrímur sem passa við pokahönnunina
  • Tannburstasett í pappírspoka
  • Eyrnatappar í pappírspoka
  • Sokkar
  • Varasalvi og handáburður frá sænska húðvörumerkinu Verso Skincare
Farþegar geta valið hvað þeir vilja fá í sinn poka.Icelandair





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.