Erlent

Sagði Campbell´s „gjörunninn“ mat fyrir „fá­tækt fólk“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Campbell´s súpurnar njóta vinsælda um allan heim.
Campbell´s súpurnar njóta vinsælda um allan heim. Getty/Justin Sullivan

Framkvæmdastjóri hjá matvælaframleiðandanum Campbell´s hefur verið settur í leyfi vegna málssóknar þar sem hann er sakaður um að hafa gert lítið úr vörum fyrirtækisins og sagt þær aðeins fyrir fátækt fólk.

Málið var höfðað af Robert Garza, sem starfaði sem netöryggissérfræðingur hjá Campbell's. Hann segist hafa verið látinn fjúka eftir að hafa tilkynnt ummæli Martin Bally til yfirmanna og greint frá því að hann hygðist klaga hann.

Að sögn Garza sagði Bally á fundi að vörur Campbell´s væru „gjörunnar“ vörur fyrir „fátækt fólk“ og að indverskir starfsmenn fyrirtækisins væru „hálfvitar“ sem honum mislíkaði að þurfa að vinna með.

Washington Post hefur undir höndum upptöku þar sem Bally heyrist bölva Indverjum og segir þá ekki færa um sjálfstæða hugsun. Þá heyrist hann einnig segja að súpur fyrirtæksins, sem hafa verið gríðarlega vinsælar meðal Bandaríkjamanna og fleiri í áratugi, innihaldi mögulega ræktaðar kjötvörur.

„Ég kaupi ekki lengur vörur frá Campbell´s,“ heyrist maður segja, sem Garza segir Bally. „Ég vil ekki borða kjúkling sem kom úr þrívíddarprentara.“

Samkvæmt Campbell´s eru ásakanirnar gegn Bally nú í rannsókn en fyrirtækið segist aðeins nota „alvöru kjúkling“ í vörur sínar. Ef niðurstaðan verði sú að Bally hafi sannarlega sagt það sem hann er ásakaður um, sé það algjörlega óásættanlegt.

Washington Post fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×