Erlent

Barna­verndar­mál vekur um­ræður um ó­hefð­bundinn líf­stíl

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fjölskyldan hafði komið sér fyrir í niðurníddu húsnæði í skóglendi í Abruzzo.
Fjölskyldan hafði komið sér fyrir í niðurníddu húsnæði í skóglendi í Abruzzo. Getty

Ákvörðun dómara á Ítalíu að láta taka börn frá foreldrum sínum sem eru frá Ástralíu og Bretlandi hefur vakið nokkra reiði í landinu en sumum þykir um að ræða aðför gegn óhefðbundnum lífstíl. Stjórnvöld hafa tjáð sig um málið og hyggjast skoða það. 

Catherine Birmingham, fyrrverandi reiðkennari frá Melbourne, og Nathan Trevallion, fyrrverandi matreiðslumaður frá Bristol, festu kaup á fasteign í niðurníðslu í skóglendi í Palmoli í Abruzzo árið 2021.

Hugmyndin var að ala börnin þrjú, Utopia Rose, átta ára, og hina sex ára gömlu tvíbura Bluebell og Galorian, upp í náttúrunni. Fjölskyldan ræktaði eigin mat, sótti vatn í brunn og nýtti sólarorku til rafmagnsframleiðslu. Þá hélt hún nokkur húsdýr og börnin voru heimaskóluð.

Aðstæður fjölskyldunnar rötuðu inn á borð yfirvalda eftir að leggja þurfti þau öll inn á sjúkrahús í september í fyrra, eftir að þau höfðu neytt eitraðra sveppa sem þau höfðu tínt í skóginum. Rannsókn leiddi í ljós að húsnæði fjölskyldunnar var óíbúðarhæft og að hreinlætisaðstæður væru hörmulegar.

Saksóknarar fóru með málið fyrir dómstól, sem féllst á það að heimilisaðstæður barnanna væru óviðunandi og fyrirskipaði að þau skyldu tekin af foreldrum sínum. Þau voru flutt á heimili rekið af kirkjunni í síðustu viku, þar sem móðir þeirra dvelur með þeim en í öðru herbergi.

Dómarinn fann meðal annars að því að foreldrarnir hefðu engar tekjur til að sjá fyrir börnunum, að þau lifðu við félagslega einangrun, að börnin sóttu ekki skóla og að það væri engin salernisaðstaða á heimilinu.

Trevallion sagði í samtali við fjölmiðilinn La Repplica að verið færi að refsa fjölskyldunni fyrir að lifa utan kerfisins og eyðileggja hamingjuríkt líf þeirra. Foreldarnir hafa íhugað að flytja til Ástralíu vegna málsins.

Eins og fyrr segir hefur málið vakið nokkra reiði og forsætisráðherrann Giorgia Meloni meðal annars lýst af því áhyggjum. Hefur hún skipað dómsmálaráðherranum Carlo Nordio að leggja mat á það hvort grípa þurfi inn í. Aðstoðarforsætisráðherrann Matteo Salvini hefur líkt ákvörðun dómarans við mannrán.

Chiara Saraceno, þekktur ítalskur félagsfræðingur, segir hins vegar erfitt að átta sig á málinu. Það sé ekkert að því að heimaskóla börn en hins vegar virðist börnin í þessu tilviki hafa verið félagslega einangruð og búið við óviðunandi aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×