Skoðun

„Við lofum að gera þetta ekki aftur“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Formaður Samfylkingarinnar, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, sagði frá því í á Facebook-síðu sinni í gær að hún hafi rætt við Ursulu von der Leyen, forsætisráðherra Evrópusambandsins (forseta framkvæmdastjórnar þess), sem hafi sagt að verndartollarnir á Ísland fælu í sér sértækt tilvik sem væri ekki fordæmisgefandi fyrir aðrar ákvarðanir sambandsins. Einungis hefði verið um að ræða hliðarspor. Með öðrum orðum voru skilaboðin: „Við lofum að gera þetta ekki aftur.“

Hins vegar hefur von der Leyen og aðrir forystumenn Evrópusambandsins á sama tíma ítrekað lýst því yfir að þeir telji sig ekki hafa gert neitt rangt og að aðgerðirnar hafi rúmast innan EES-samningsins. Með öðrum orðum að sambandið hafi verið í fullum rétti til þess. Hvernig er þá hægt að treysta orðum von der Leyen? Fordæmið er til staðar hvað sem hún segir. Spurningin er einungis hvort því verði fylgt í framtíðinni. Það vitum við ekkert um og á einfaldlega eftir að koma í ljós.

Veruleikinn er eftir sem áður sá að staðan er gerbreytt hvað sem líður orðum von der Leyens. Við töldum okkur áður geta treyst því að svona lagað gerðist ekki nema við einhvers konar neyðaraðstæður líkt og sköpuðust hér á landi í kjölfar bankahrunsins. Með það fyrir augum var ákvæðið í EES-samningnum sem Evrópusambandið vísar til sett. Þær aðstæður sem nú eru fyrir hendi innan sambandsins varðandi kísiljárn geta hæglega skapast reglulega á komandi árum.

Traustið í þeim efnum er farið. Þar til og ef það traust verður endurheimt ríkir mikil óvissa hvað það varðar. Fyrirsjáanleikinn fyrir atvinnulífið sem talinn var vera til staðar er það ekki lengur. Komið hefur fram að hagsmunir Evrópusambandsins varðandi kísiljárn séu takmarkaðir, varði aðeins tæplega 2.000 störf á um 200.000 manna vinnumarkaði. Við höfum því miður enga tryggingu fyrir því að sambandið endurtaki ekki leikinn varðandi aðrar og enn mikilvægari útflutningsvörur.

Kristrún sagði okkur Íslendinga áfram geta reitt okkur á greiðan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn en hinn nöturlegi veruleiki er hins vegar sá að við vitum það ekki. Við vitum hins vegar að við munum áfram standa frammi fyrir sífellt meira íþyngjandi og kostnaðarsömu regluverki frá sambandinu í gegnum samninginn sem og vaxandi kröfum um framsal valds yfir okkar málum. Með nútímalegum víðtækum fríverzlunarsamningi þyrfti þess ekki.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál)




Skoðun

Sjá meira


×