Viðskipti innlent

Verðbólguþróunin á­hyggju­efni

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, bendir á að nær allir liðir í mælingu á vísitölu neysluverðs séu að hækka. Verð á matar- og drykkjarvörum hækkar um 5,8% milli mánaða.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, bendir á að nær allir liðir í mælingu á vísitölu neysluverðs séu að hækka. Verð á matar- og drykkjarvörum hækkar um 5,8% milli mánaða. vísir/samsett

Aukin verðbólga milli mánaða er áhyggjuefni að mati hagfræðings hjá Íslandsbanka. Peningastefnunefnd Seðlabankans horfi til nýrrar mælingar og haldi vöxtum líklega óbreyttum í nóvember.

Verðbólga mælist nú 4,3 prósent, samanborið við 4,1 prósent í september samkvæmt nýrri mælingu Hagstofunnar, og hefur ekki verið meiri síðan í janúar. Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá greiningu Íslandsbanka, bendir á aukningin sé umfram spár.

„Flestir liðir eru að hækka eitthvað á milli mánaða. Reiknaða húsaleigan er að hækka til dæmis meira en við gerðum ráð fyrir og það er svona það sem kemur okkur helst á óvart í þessari mælingu,“ segir Bergþóra.

Þróunin sé áhyggjuefni.

„Það helsta í þessu er að undirliggjandi verðbólga er að aukast og það þýðir að ef við tökum sveiflukennda liði út úr mælingunni er verðbólga samt sem áður að aukast og það er ákveðið áhyggjuefni,“ segir Bergþóra.

„Þetta er mæling sem peningastefnunefnd Seðlabankans horfir mikið til þannig Seðlabankinn er kannski kominn í svolítið snúna stöðu. Það hefur komið högg á útflutningsgreinarnar okkar síðastliðna mánuði en við erum samt sem áður með mikla verðbólgu og miðað við óbreytta stöðu er líklegast að Seðlabankinn muni halda vöxtum óbreyttum í nóvember, ekki nema við sjáum hagkerfið kólna enn frekar á næstu vikum.“

Snúið verkefni

Verðbólga hafi nú verið í kringum fjögur prósent frá ársbyrjun og það verði erfitt að ná henni niður í markmið. Á síðustu fundum peningastefnunefndar hafi komið fram að vextir verði ekki lækkaðir fyrr en verðbólga fer að hjaðna, sem Bergþóra telur að gerist í byrjun næsta árs.

„Vonandi er þetta ekki það sem koma skal, að flestir liðir séu að hækka milli mánaða. Það er svolítið áhyggjuefni í okkar augum en við gerum samt sem áður ráð fyrir að hún muni hjaðna. En hún mun hjaðna hægt og það mun taka tíma,“ segir Bergþóra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×