Erlent

Við­kvæmur friður þegar í hættu?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ísraelsstjórn hefur ákveðið að hægja á flutningi neyðarbirgða inn á Gasa vegna hægagangs í enduheimt líkamsleifa.
Ísraelsstjórn hefur ákveðið að hægja á flutningi neyðarbirgða inn á Gasa vegna hægagangs í enduheimt líkamsleifa. Getty/Anadolu

Aðeins um vika er liðin frá því að samkomulag náðist um vopnahlé á Gasa en það virðist nú þegar í hættu. Ísraelsmenn ákváðu í gær að falla frá opnun Rafah hliðsins milli Gasa og Egyptalands og hægja á flutningum neyðarbirgða inn á svæðið.

Ástæðan er hægagangur í skilum Hamas á líkum einstaklinga sem létust í haldi samtakanna, eftir að hafa verið teknir í gíslingu 7. október 2023. Aðeins átta lík hafa skilað sér, þar af fjögur í gærkvöldi.

Tuttugu er enn saknað en Hamas liðar segja hægaganginn skýrast af því að ekki sé vitað hvar líkin séu niðurkominn. Vitað er að gíslarnir voru í haldi aðskildra hópa og óljóst hvar öll líkin voru grafin.

Rauði krossinn hefur enn fremur varað við því að endurheimt líkanna muni taka tíma, þar sem erfitt sé að finna lík í rústunum sem nú einkenna Gasa.

Eins og fyrr segir hafa stjórnvöld á Ísrael brugðist harkalega við töfunum og ákveðið að fækka fjölda bifreiða með neyðarbirgðir sem fá að fara inn á Gasa úr 600 í 300 á dag. Þá hafa þau ákveðið að opna ekki hliðið milli Gasa og Egyptalands en báðar ákvarðanirnar brjóta gegn friðarsamkomulaginu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvatti Hamas í gær til að standa við gefin loforð og þá hafði hann í beinum hótunum við samtökin þegar hann sagði að þau þyrtu að leggja niður vopn ella yrðu þau afvopnuð, mögulega með valdi.

Samtökin hafa harðneitað að afvopnast, sem gæti reynst banabiti samkomulagsins, þar sem Ísraelsstjórn hefur ítrekað heitið því að koma í veg fyrir að Hamas geti nokkurn tímann aftur ráðist gegn íbúum Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×