Lífið

Tinda­tríóið híft upp en Anna Sigga enn föst

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þór Hauksson, Tinda-tríóið og Magnús Sævar Magnússon.
Þór Hauksson, Tinda-tríóið og Magnús Sævar Magnússon. Vísir/Sigurjón

Velunnarar Árbæjarkirkju safna nú fyrir lyftu í nýja viðbyggingu við safnaðarheimili kirkjunnar. Lyftustokkurinn er tómur sem stendur og hefur meðal annars verið ráðist í sketsagerð til að safna fyrir lyftunni. 

Í klippunni hér fyrir neðan sjást sóknarprestur og kirkjuvörður Árbæjarkirkju draga Tindatríóið upp í gegnum lyftustokk í safnaðarheimili kirkjunnar sem verið er að stækka. Unnið er að því að safna fyrir lyftunni og söfnunin auglýst með ýmsum frumlegum leiðum, til dæmis með sketsagerð.

„Eina leiðin niður er hringstigi sem hindrar fatlað fólk og aldraða frá því að komast niður í safnaðarheimilið. Við viljum að allir komist í allt sem við bjóðum upp á,“ segir séra Þór Hauksson sóknarprestur.

Er algengt að það sé tríó að fela sig í lyftustokknum?

„Nei, við áttum ekki von á þessu. Það er ein kona enn þarna niðri. Hún heitir Anna Sigga, hún er enn þá föst og að bíða eftir að komast upp,“ segir Magnús Sævar Magnússon, kirkjuvörður, kankvíslega. 

Framkvæmdirnar við Árbæjarkirkju hófust árið 2007, rétt fyrir hrun, og eftir langt hlé hefur viðbyggingin sprottið hratt upp. En þetta eru dýrar framkvæmdir.

Nýja safnaðarheimilið er glæsilegt.Vísir/Sigurjón

„Við höfum aldrei gert neitt nema eiga fyrir spítunni og naglanum. Eins og gengur verður þetta dýrara en maður heldur. Við gerðum auðvitað ráð fyrir lyftu en verðum að safna fyrir henni,“ segir séra Þór.

Á sunnudaginn þarnæsta, 19. október klukkan 16, verða styrktartónleikar þar sem Tindatríóið ætlar að trylla lýðinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.